22.10.2011 | 06:59
Steinn í Hressingarskálanum
Hressingarskálinn var opnaður á öðrum degi jóla 1929 og varð þegar eitt vinsælasta kaffihús bæjarins. Fyrstu tvö árin var skálinn í húsi því, sem kennt var við Reykjavíkurapótek (Pósthússtræti 7), en fluttist vorið 1932 að Austurstræti 20.
Vinur Halldórs Kiljans Laxness úr Unuhúsi, utangarðsmaðurinn Jón Pálsson frá Hlíð, kom stundum í Hressingarskálann fyrstu árin. Þar sagði hann eitt sinn um Kiljan: Hann er eins og taflborð, nema það vantar mennina. Kiljan var jafnan mjög vel klæddur. Sást hann um það leyti skunda um miðbæinn í stórköflóttum tweed-jakka og pokabuxum að erlendri fyrirmynd. En orð Jóns skírskota eflaust einnig til þess, að stundum þótti vanta hlýju í þær myndir, sem Kiljan dró upp af mönnum. Sjálfur gekk Jón í sjó 1938.
Annar kaffihúsaspekingur, Ólafur Friðriksson ritstjóri, sat líka iðulega í Hressingarskálanum og talaði þá illa um Kiljan. Bækur Kiljans eru skrifaðar á færeysku. Fannst honum (eins og Þórbergi Þórðarsyni) orðfæri Kiljans ósjaldan tilgerðarlegt og tilfundið.
Steinn Steinarr var hinn ókrýndi konungur Hressingarskálans. Sat hann þar löngum að skrafi, enda sagði hann Ragnari í Smára, að kaffihúsin væru sinn háskóli.
Mörg tilsvör Steins í Hressingarskálanum voru neyðarleg. Í desember 1955 hitti hann þar Einar Braga, sem sýndi honum stoltur nýprentaðan ritdóm eftir sig um Sigfús Daðason. Það er nú fallegt af þér, Einar minn, að hrósa þessum strákum. En þú skalt vara þig á einu, sagði Steinn íbygginn. Hverju? spurði Einar Bragi. Að vitna mikið í ljóðin, svaraði Steinn. Hvers vegna? spurði Einar Bragi undrandi. Þá er svo hætt við, að fólk sjái strax, að þú ert að plata, svaraði Steinn.
Ári síðar, haustið 1956, settist skáldið Jóhannes úr Kötlum, einn sanntrúaðasti kommúnisti Íslands, við sama borð og Steinn í Hressingarskálanum. Talið barst að kynnisferð, sem Steinn hafði farið í til Ráðstjórnarríkjanna þá um sumarið, en þar hafði honum litist illa á sig. Jóhannes var á báðum áttum: Ég veit ekki, hverju ég á að trúa. Steinn sagði: Oo, þú skalt bara halda áfram að trúa.
(Þessi pistill er sóttur í marga staði í bókum mínum, Kjarna málsins, sem kom út 2010, og Íslenska kommúnista 19181998, sem er væntanleg í nóvember. Myndina teiknaði Gunnar Karlsson teiknari.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:01 | Facebook