13.8.2011 | 14:24
Dómar um Þórberg
Þótt allir væru sammála um, að Þórbergur Þórðarson væri manna ritfærastur, voru dómar um opinbera framgöngu hans misjafnir. Var honum alvara með sumu því, sem hann lét frá sér fara?
Sumir kváðu nei við. Eggert Stefánsson söngvari sagði um þá Þórberg og Kjarval málara: Íslendingar dýrka trúðana. Og Guðmundi G. Hagalín rithöfundi varð að orði, eftir að bók um Þórberg, Í kompaníi við allífið, birtist vorið 1959: Þórbergur Þórðarson er ekki þjóðskáld, heldur þjóðfífl.
Hvort sem Þórbergur var trúður eða ekki, þótti hann að minnsta kosti trúgjarn. Þegar Árni Pálsson prófessor frétti, að Þórbergur væri sestur niður til að skrifa ævisögu séra Árna Þórarinssonar prófasts eftir honum, mælti hann: Það verður góð bók, þegar trúgjarnasti maður á Íslandi fer að skrifa ævisögu lygnasta mannsins á Íslandi.
Vilmundur Jónsson landlæknir var eitt sinn spurður, hvor væri trúgjarnari, Þórbergur eða Guðbrandur Magnússon, sem var um skeið forstjóri Áfengisverslunar ríkisins. Svarið var: Það er augljóst mál. Guðbrandur er trúgjarnari. Hann trúir öllu, sem honum er sagt, en Þórbergur engu nema því, sem er logið að honum.
Minnir þetta á það, er Þórbergur skráði samviskusamlega niður sagnir ungrar stúlku og gaf út í Viðfjarðarundrunum. Þegar móðir stúlkunnar, Huldu Guðbjargar Sigurðardóttur, átaldi hana fyrir, svaraði hún: Ég hef svo gaman af að ljúga að honum Þórbergi.
Sanngjörnustu dómana um Þórberg eiga sennilega þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Pétur Pétursson útvarpsþulur. Guðmundur Andri komst svo að orði: Hann hélt að hann gæti haft vit á öllu, bara með því að hafa skoðanir á öllu. Og Pétur sagði eitt sinn við mig: Þórbergur Þórðarson var þrír menn, Espólín, Vídalín og Sjapplín.
Þórbergur var vissulega nákvæmur sagnritari að fordæmi Jóns Espólíns, prédikaði jafnskörulega og Jón Vídalín og brá fyrir sig gamanleik eins og Charles Chaplin.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 6. ágúst 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún hentar jafnvel til að taka upp í sumarbústaðinn og til að gefa fólki í afmælis- og útskriftargjafir.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook