7.8.2011 | 21:38
Hreinsun Oksanens
Fyrir orð Gísla Marteins Baldurssonar las ég á dögunum Hreinsun eftir finnsk-eistnesku skáldkonuna Sofi Oksanen, sem kom hingað til lands á bókmenntahátíð fyrir skömmu. Skiptar skoðanir höfðu verið um bókina í hópi samstarfskvenna minna í háskólanum, en Gísli Marteinn mælti eindregið með henni.
Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Bókin grípur lesandann, sem getur ekki lagt hana frá sér, fyrr en hann hefur fengið botn í, hvað er að gerast og hvað hafði verið að gerast. Tvær konur, önnur ung og hin roskin, hittast eða öllu heldur rekast á í Eistlandi. Smám saman koma leyndarmálin, sem tengja þær, í ljós, og um leið sér lesandinn inn í hrollkaldan veruleikann í Eistlandi og Rússlandi undir stjórn kommúnista.
Þetta skáldverk er ekki reyfari, en það er reyfarakennt.
Þótt ég kæmi ekki auga á neinn stjórnmálaboðskap í skáldverki Oksanens, leiðir hún hugann að stjórnmálum. Íslendingar voru heppnari með volduga nágranna en Eistlendingar. Við höfðum lýðræðisstjórnir Breta og Bandaríkjamenn. Þeir höfðu einræðisstjórnir Stalíns og Hitlers.
Í bók minni, Íslenskir kommúnistar 19181998, sem kemur út í haust, eru margar óvæntar tengingar við Eystrasaltslöndin, og má nefna fyrirlestraferð Ljúbu Friedlands, gyðingakonu frá Lettlandi, hér um kommúnismann í Rússlandi haustið 1923, ritdeilu landflótta Litháa, Teodorasar Bielickanas, við íslenska sósíalista um Eystrasaltsríkin í lok seinni heimsstyrjaldar, heimsókn dr. Augusts Reis, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, hingað vorið 1957 (sem sendiherra Ráðstjórnarríkjanna mótmælti) og laumuheimsókn eins versta böðuls Eistlands, Ivans Käbins, hingað vorið 1978.
Nú vilja allir Lilju kveðið hafa. En engir íslenskir sósíalistar létu sér skipta örlög Eystrasaltsþjóðanna og fáir aðrir. Þeir voru þó til. Séra Sigurður Einarsson í Holti þýddi bókina Örlaganótt yfir Eystrasaltsríkjum, sem var ein fyrsta útgáfubók Almenna bókafélagsins 1955, og Davíð Oddsson þýddi bókina Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds 1973. Þær eru báðar merkar heimildir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook