6.8.2011 | 06:41
Stalín var hér
Haustið 1977 sýndi Þjóðleikhúsið leikritið Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson. Sögusviðið var heimili Þórðar járnsmiðs árið 1957. Hann er í Sósíalistaflokknum og vill ekki viðurkenna, að sósíalisminn hafi orðið fyrir áföllum við afhjúpun Stalíns og innrásina í Ungverjaland. En kona hans heimtar, þegar þau flytjast í nýja íbúð, að hann selji rit sín um marxisma: Við verðum að fara að gera hreint.
Sömu dagana og leikritið var fært upp í Þjóðleikhúsinu, hélt Alþýðubandalagið landsfund, og sögðu gárungarnir, að sama leikritið væri leikið samtímis á tveimur stöðum í Reykjavík. Alþýðubandalagið var þá að sverja af sér forvera sína, Sósíalistaflokkinn og kommúnistaflokkinn, þótt enn laumuðust einstakir forystumenn flokksins öðru hverju til Ráðstjórnarríkjanna í boði Kremlverja.
Forystumenn Sósíalistaflokksins voru ekki einir um stalínisma. Ræstingakona Þjóðviljans, Elín Ólafsdóttir, hafði þetta viðkvæði: Þá minnist ég Bjarna frá Vogi og Josífs Stalíns, er ég heyri góðs manns getið. Kunningi minn sagði við annan sannfærðan stalínista, Bóas Emilsson, trésmið á Selfossi, að hann gæti nú ekki neitað því, að Stalín hefði látið drepa milljónir manna á valdatíma sínum. Bóas var snöggur til svars: Ja, hvað drepur Guð marga á hverjum degi?
Jens Figved, sem var í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, var líklega eini Íslendingurinn, sem talaði við Stalín. Var það símleiðis, og leyfði Stalín þýðingu á einu verki sínu, væntanlega Nokkur atriði úr sögu bolsévismans, sem birst hafði haustið 1931 í Rússlandi (en hér í Bolsjevikkanum 1934).
Nokkrir Íslendingar sáu Stalín þó álengdar, oftast á hersýningum á Rauða torginu. Halldór Kiljan Laxness virti hann fyrir sér á sviði í Bolshoj-leikhúsinu 11. desember 1937. Í Gerska æfintýrinu skrifaði Laxness síðan, að Stalín væri í hærra meðallagi á vöxt, grannur og vel limaður. Þetta var fráleitt. Stalín var mjög stuttur, nánast dvergur, þrekinn og bólugrafinn. Raunar breytti Laxness þessu í annarri útgáfu 1983, og var Stalín þá í meðallagi á vöxt. Hér gerði aldrei þessu vant fjarlægðin manninn minni.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 30. júlí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í tvær bækur mínar, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, og Íslenska kommúnista 19181998, sem væntanleg er næsta haust.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook