Harmleikurinn í Noregi

Harmleikurinn í Noregi er nálægt okkur. Norðmenn eru frændur okkar og grannar. Þess vegna finnum við sterkt til með þeim. Skyndilega er friður hinna norðlægu slóða, okkar og þeirra, rofinn með kúlnahríð. Sá friður hefur að vísu stundum verið rofinn áður, til dæmis á stríðsárunum síðustu, en tilfinningin er engu að síður ónotaleg.

Hugur okkar hlýtur að vera með fórnarlömbunum, — saklausu, ungu fólki, sem truflaður maður sviptir snögglega lífinu, en ella hefði það legið beint og bjart framundan í þessu vandræðalausa landi. Hugur okkar hlýtur líka að vera með vandamönnum fórnarlambanna, sem munu þurfa að bera sorgina alla óliðna ævi. Við megum ekki láta neinar íslenskar þúfur byrgja okkur sýn, heldur samhryggjast þeim.

Enska ljóðskáldið John Donne orti:

Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér. Sérhver maður er brot af meginlandinu, hluti veraldar. Ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, ekki síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri. Dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu. Spyr þú því aldrei, hverjum klukkan glymur. Hún glymur þér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband