24.7.2011 | 23:46
Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju?
Í þriðju viku mars 2011 birti DV nokkrar fréttir um greiðslur Landsbankans til kynningar- og ráðgjafafyrirtækis, sem ég rek. Ekkert var óeðlilegt við þessar greiðslur, þess var sérstaklega getið á heimasíðu verkefnisins, sem styrkt var, að Landsbankinn var styrktaraðili, jafnframt því sem þessar greiðslur komu að sjálfsögðu fram í rekstrarreikningi fyrirtækisins og í skattframtali þess. Þetta var ekkert mál.
Spurningin er hins vegar, hvernig DV barst vitneskja um málið, sem var ekkert mál. Af fréttum blaðsins og þeim spurningum, sem það hafði sent mér, mátti sjá, að blaðamaður DV hafði séð reikninga frá fyrirtæki mínu eða verið sagt frá þeim. Orðalag og upplýsingar, sem DV hafði eftir, voru samkvæmt þessum reikningum, ekki til dæmis samkvæmt færslum bankans. Þessir reikningar voru sendir stafrænt, ekki á pappír, til Landsbankans þrisvar árin 2007 og 2008. Blaðamaður DV hafði ekki séð alla reikningana og vissi ekki, hvort þeir höfðu verið greiddir.
DV gat aðeins borist vitneskja um málið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi hefði einhver innan bankans, sem til þess hefði heimild, getað opnað reikningana, þar sem þeir voru geymdir rafrænt, skoðað þá og hugsanlega afritað. En sá hængur er á, að slík opnun og skoðun er ætíð skráð. Hún skilur eftir sig rafræna slóð. Rannsókn Landsbankans á málinu leiddi í ljós, að því er mér er sagt, að ekkert slíkt gerðist.
Í öðru lagi hefði einhver utan bankans getað brotist inn í tölvukerfi hans (ekki ef til vill allt, heldur hluta þess) og leitað að nöfnum eftir fyrirsögn og þá væntanlega fyrirsögn blaðamanna DV. Annað eins hefur gerst. Til dæmis braust ungur maður inn í tölvukerfi fyrirtækis fyrir nokkru, aflaði upplýsinga um ýmis einkamál kunnra íþróttagarpa og stjórnmálamanna og seldi DV.
Ef þetta hefur verið gert, þá hafa þeir, sem hlut eiga að máli, gert hið sama og blaðamenn Ruperts Murdochs í Bretlandi, sem nú sæta rannsókn. Þeir hafa brotist inn í og hlustað á eða skoðað fjarskipti, hvort sem það eru upplýsingar í tölvu eða síma. Mikilvægt er fyrir framvindu málsins, hvort þeir hafa gert það að eigin frumkvæði eða ekki.
Máli skiptir, hvort einhver hefur brotist að utan inn í tölvukerfi Landsbankans og aflað upplýsinga þaðan og síðan selt DV eða hvort blaðamenn DV hafa beinlínis gert út slíkan tölvuþrjót til þess að afla upplýsinga um einstaka menn (til dæmis mig) og greitt honum fyrir. Sök blaðamanna er vitanlega mikil í báðum tilvikum, en þó miklu beinni og meiri í hinu síðarnefnda. Lilja Skaptadóttir er aðaleigandi blaðsins. Hún leggur DV til fé. Án hennar hefði það fyrir löngu hætt útkomu. Hún er ábyrg fyrir greiðslum til slíkra verkefna. Þær eru úr vasa hennar. Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju um málið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook