Geir og Maó

Ég skulda Geir Sigurðssyni svar við gagnrýni hans á mig hér á Pressunni 30. júní 2011. Ég hafði bent á það í einum pistli mínum eftir lestur bókarinnar Mao’s Great Famine eftir Frank Dikötter, að sum skjalasöfn í Kína væru lokuð öðrum en þeim fræðimönnum, sem væru í náðinni hjá stjórnvöldum þar eystra. Geir ætti, bætti ég við, að reyna að fá aðgang að einhverjum þeirra og gera þannig fræðunum gagn. Þessa vinsamlegu ábendingu tók Geir óstinnt upp og skrifaði langt mál um hlutverk og skyldur fræðimanna.

Geir falsar að vísu í gagnrýni sinni skoðanir mínar. Hann segir, að ég hafi andmælt því að taka verk Maós til skoðunar á fræðilegum ráðstefnum. Það hef ég ekki gert. Ef eitthvað er, þá þyrfti að rifja upp fleira um þennan kúgara fjölmennustu þjóðar heims, halda margar fræðilegar ráðstefnur um ódæði hans. Ég andmælti því hins vegar í Fréttablaðinu 1. desember 2007 að halda ráðstefnu undir þeim formerkjum, eins og Háskóli Íslands gerði í nóvember það ár, að Maó væri eins og hver annar stjórnmálamaður.

Maó var ódæðismaður, böðull, níðingur, fjöldamorðingi, líklega afkastamesti fjöldamorðingi sögunnar. Ég benti á það í grein minni fyrir fjórum árum, að eitthvað hefði verið sagt, hefði verið haldin í Háskóla Íslands ráðstefna um Hitler, þar sem forsvarsmenn hennar hefðu sagt (eins og þeir gerðu 2007 í tilefni ráðstefnunnar um Maó), að „hlutlæg umræða um Hitler væri nauðsynleg“. Síðan hefði verið bætt við, eins og þeir gerðu: „Í því samhengi er svo mikilvægt að forðast að fordæma hvaðeina sem fyrir augu og eyru ber. Því okkar er ekki að fordæma þar sem við getum ekki sett okkur almennilega í spor þeirra sem bæði urðu fyrir hremmingum á þessu tímabili og þeirra sem stjórnuðu þeim.“

Jú, þið miklu ráðstefnuhaldarar, Geir Sigurðsson og félagar: Við eigum einmitt að fordæma Hitler. Já, og við þurfum að geta sett okkur í spor fórnarlambanna, ekki aðeins gyðinganna, sem fórust í helförinni, heldur líka allra hinna fórnarlamba nasista. Og í því sambandi megum við ekki heldur gleyma þýsku fórnarlömbunum, — þeim hátt í tíu milljónum manna, sem reknar voru út úr Póllandi og Tékkóslóvakíu eftir stríð.

Á sama hátt eigum við að fordæma Maó og reyna að setja okkur í spor fórnarlamba hans. Blóðbað var í landinu strax eftir valdatöku kommúnista, en þá voru 1–2 milljónir manna drepnar. Talið er, að hátt í fjörutíu milljónir manna hafi týnt lífi í hungursneyðinni, sem skall á eftir Stóra stökkið fram á við. Ekki er vitað, hversu margir aðrir voru teknir af lífi eða féllu úr vosbúð í þrælabúðum kínverskra kommúnista, laogai, sem er meðal annars lýst í Svartbók kommúnismans.

Á ráðstefnunni um Maó var lesið upp úr ljóðum hans. Hvað hefði verið sagt, hefði á ráðstefnu um Hitler verið haldin sýning á vatnslitamyndum hans honum til heiðurs?

Ég vék lítillega í pistli mínum að nýlegum og mjög neikvæðum ritdómi Geirs í Sögu um ævisögu Maós eftir þau Jung Chang og John Halliday. Þar finnur hann þessu riti þeirra allt til foráttu. Það er bannað í Kína eins og fyrri bók Jung Chang, Villtir svanir, afbragðsverk. Ég skal játa, að sú hugsun sótti á mig, þegar ég las ævisöguna, að höfundarnir væru afar fjandsamlegir Maó. Var ekkert gott um hann? Þótt mig skorti sérþekkingu á kínverskri sögu, finnst mér þó blasa við, að ritið er fræðilegt afrek. Þau hjón hafa dregið saman ótrúlegan fróðleik um þennan grimma alræðisherra, bjargað margvíslegri vitneskju frá gleymsku. Gildir þá einu, þótt Jung Chang kunni eins og Solzhenítsyn í Rússlandi forðum að vera knúin áfram af reiði í garð kúgara síns.

Ótrúlegt var líka að lesa það, sem Viðar Hreinsson sagnfræðingur sagði, þegar Jung Chang var gestur bókmenntahátíðar í Reykjavík haustið 2007: Hátíðin væri „reaksjonær kaupstefna“ og verk hennar um Maó „níðrit“. Þetta var mjög í sama anda og skrif Geirs Sigurðssonar, fyrst til varnar ráðstefnunni um Maó, síðan gegn bók Jung Chang og Johns Hallidays. Ég tel, að Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, sem skipulagði hátíðina, eigi einmitt heiður skilinn fyrir að hafa boðið Jung Chang á hana.

Ég vissi, að íslenskir kommúnistar vilja öllu gleyma. En hafa þeir ekkert lært?

Ég tel hins vegar, að pistill Geirs Sigurðssonar sé áskorun. Ég ætla að taka henni og senda Sögu rækilegt svar við ritdómi hans, strax og ég kem því við. Fróðlegt verður að vita, hvort það verður birt þar eða hvort það verður bannað þar — eins og rit Jung Chang er í Kína.

Og þeim Geir Sigurðssyni, Viðari Hreinssyni og öðrum úrtölumönnum um að nefna hlutina réttum nöfnum svara ég aðeins einu: Þið segið, að ég sé litaður. Það getur vel verið. Ég vil einmitt vera eins á litinn og allir þeir, sem ofsóttir eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband