18.7.2011 | 17:49
Tilsvör Ólafs og Churchills
Winston Churchill, sem tvisvar var forsætisráðherra Breta, var annálaður orðhákur. Hann var náfrændi hertogans af Marlborough, sem átti höllina Blenheim, skammt frá Oxford. Eitt sinn var Churchill þar staddur í samkvæmi ásamt lafði Nancy Astor, sem fyrst kvenna settist á breska þingið. Þeim sinnaðist, og sagði lafði Astor reiðilega: Væri ég konan þín, Winston, þá myndi ég láta eitur út í kaffið þitt. Churchill svaraði að bragði: Væri ég maðurinn þinn, Nancy, þá myndi ég drekka það.
Í annað skipti hélt Churchill ræðu í breska þinginu, í Westminster-höll við Tempsá. Þá kallaði einn þingmaður Verkamannaflokksins, Bessie Braddock, fram í fyrir honum: Þér eruð drukknir! Churchill svaraði: Og þér, frú mín góð, eruð ljótar. En það verður runnið af mér í fyrramálið.
Ólafur Thors, sem fimm sinnum var forsætisráðherra á Íslandi, kunni ekki síður en Churchill að svara fyrir sig. Í einu tilsvari hans kemur Churchill við sögu. Ólafur hafði haustið 1944 myndað stjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks. Um þær mundir stóð heimsstyrjöldin síðari sem hæst, en í henni börðust Bretar og Bandaríkjamenn við hlið Rússa. Var þá dátt með ráðamönnum í Washington, Lundúnum og Moskvu. Eftir stríð kólnaði í milli þeirra. Sagði bandarískur sendimaður þá við Ólaf: Hvernig stendur á því að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér? Ólafur svaraði: Þeir höfðu svo góð meðmæli. Sendimaðurinn spurði undrandi: Frá hverjum? Ólafur svaraði: Frá Roosevelt og Churchill.
Ólafur naut sín vel á kosningafundum. Á fundi í Keflavík, sennilega fyrir kosningarnar 1949, kallaði einn fundarmanna: Það er ég viss um, Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu! Ólafur svaraði: Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margur gerir!
Vorið 1958 riðaði vinstri stjórn Hermanns Jónassonar til falls. Á fundi sagði þá flokksbróðir Ólafs: Við sjálfstæðismenn þurfum að vera við öllu búnir, ef stjórnin segir af sér. Ólafur svaraði snöggur upp á lagið: Ætli hún svíkist ekki um það eins og annað? Reyndist hann sannspár í bili. Stjórnin lafði til haustsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook