Hvers vegna leiðréttir Gljúfrasteinsliðið ekki villurnar?

Íslenska ríkið keypti sem kunnugt er Gljúfrastein í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar fyrir ærið fé Nóbelsskáldinu til heiðurs. Er þar vinsælt safn í minningu Halldórs Kiljans Laxness, eins og vera ber. Þegar ég hef skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur, hefur það verið eftirsóttur áningarstaður. Hefur gestum mínum jafnan verið tekið þar af ljúfmennsku.

Safnið er með heimasíðu, og þar eru ýmsar skemmtilegar myndir birtar af skáldinu. Ég hef fyrir löngu bent starfsliðinu í tölvuskeytum á tvær villur í myndatextum, og hið rétta um þær getur að líta í bókum mínum um Laxness, sem komu út 2003–2005. Ég sá hins vegar, þegar ég fletti heimasíðunni í dag, að villurnar hafa ekki verið leiðréttar. Veit ég ekki, hvort ég nenni að skrifa starfsliðinu í annað skipti um þetta. Villurnar eru ekki stórar, en villur þó.

Þær eru báðar í myndasyrpu um Laxness á fullorðinsárum. Önnur myndin er af honum að tala á útisamkomu 1. maí. Á heimasíðunni segir, að þetta sé 1937. En ég benti starfsliðinu á, að þetta er 1936. Þessi villa hefur gengið aftur í mörgum ritum. Nú má fletta þessu upp í Verklýðsblaðinu 4. maí 1936 á timarit.is (þar sem skoða má gömul blöð á Netinu). Þar blasir þessi mynd við á forsíðu.

Hin myndin er af Laxness og Gunnari Gunnarssyni (sem hvor um sig sýndi hinum jafnan fyllstu kurteisi, því að báðir voru sannfærðir um, að hinn væri næstbesti rithöfundur landsins). Á heimasíðunni segir, að myndin sé tekin á Skriðuklaustri í Fljótsdal sumarið 1947 og ljósmyndari sé ekki þekktur. En ég hef það fyrir satt, að hún hafi verið tekin á Laugum 1941, og ljósmyndari hafi verið Arnór Sigurjónsson. Raunar sést af ljósmyndinni, að hún er talsvert eldri en frá 1947 (skáldin eru bæði unglegri) og að hún er ekki tekin á Skriðuklaustri (bakgrunnur þar er allt öðru vísi en á Laugum).

Auðvitað getur starfslið Gljúfrasteins látið eins og bækur mínar þrjár um Nóbelsskáldið, þar sem ég reyndi eftir bestu samvisku að draga saman fróðleik um það og skipa niður í liðlega og samfellda frásögn, séu ekki til. En það getur ekki látið eins og augljósar staðreyndir sem þessar séu ekki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband