14.7.2011 | 15:06
Viðtal við mig í Morgunblaðinu
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður tók við mig opnuviðtal í Morgunblaðið laugardaginn 2. júlí 2011 vegna bókar, sem ég hef unnið að í mörg ár og kemur út í októberbyrjun undir nafninu Íslenskir kommúnistar 19181998.
Upphaflega ætlaði ég ekki að skrifa sérstaka bók um þetta efni, heldur semja viðauka um íslenska kommúnista við Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og Háskólaútgáfan gaf út haustið 2009. En hvort tveggja var, að efnið óx í höndum mér og ég þurfti að rannsaka margt upp á nýtt, sem missagt hafði verið um íslenska kommúnista, einkum í hinu óvandaða verki Jóns Ólafssonar, Kæru félögum, þar sem allt morar í villum, yfirsjónum og ónákvæmni.
Hefur dr. Þór Whitehead þó leiðrétt margar missagnir um íslenska kommúnista í stórfróðlegri bók sinni, Sovét-Ísland. Óskalandið, sem kom út haustið 2010, en sjónarhorn hans er dálítið annað en mitt, auk þess sem frásögn hans nær ekki nema til ársins 1946. Studdist hann eins og ég geri líka við merkilegar frumrannsóknir Snorra G. Bergssonar sagnfræðings á ýmsum þáttum þessa máls.
Óhætt er að segja, að margt nýtt og forvitnilegt komi fram í bók minni. Setja þarf hina íslensku kommúnistahreyfingu í alþjóðlegt samhengi: Hún var þáttur í hinni alþjóðlegu hreyfingu. Íslenskir kommúnistar voru hvorki meiri né minni kommúnistar en gekk og gerðist annars staðar.
Þrátt fyrir allt hef ég nokkra samúð með íslenskum kommúnistum, sem sáu æskuhugsjónir sínar hrynja, og vil ekki vera ósanngjarn við þá. Faðir minn hafði ungur orðið kommúnisti og starfað í Æskulýðsfylkingunni, en hann var mannblendinn, skrafhreyfinn og góðgjarn og manna ólíklegastur til að taka þátt í kúgun og ofbeldi. Þeir Ingi R. Helgason og Guðmundur J. Guðmundsson, sem voru af sömu kynslóð í Sósíalistaflokknum, komu stundum á heimilið, þegar ég var í æsku. Voru þeir hinir elskulegustu menn í viðkynningu. Stundum var lítil og lagleg hnáta með Inga, sem hét Álfheiður.
Kolbrún spurði mig ýmissa erfiðra spurninga, eins og hennar var von og vísa, og reyndi ég að svara eftir fremsta megni. Viðtalið er aðgengilegt á Netinu hinum sífjölgandi áskrifendahóp Morgunblaðsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook