Ritgerð mín í Þjóðmálum

Óhætt er að mæla með tímaritinu Þjóðmálum, sem kemur út fjórum sinnum á ári undir skeleggri ritstjórn Jakobs Ásgeirssonar, stjórnmálafræðings og rithöfundar. Nú er sumarheftið nýkomið út (2. hefti 7. árgangs), og kennir þar margra grasa.

Ég á þar rækilega ritgerð (bls. 69–80), sem nefnist „Raddir vorsins fagna“. Heitið vísar til bókar Rachel Carsons, Raddir vorsins þagna, en með henni hófst umhverfisverndarhreyfing okkar daga. Carson hafði rétt fyrir sér um það, að okkur ber að vernda umhverfið, en hún ýkti hættuna af eiturefnum eins og DDT, sem geta verið þörf á sínu sviði. Til dæmis tókst víða að útrýma mýraköldu, malaríu, með DDT.

Í þessari ritgerð fer ég yfir hrakspár, sem settar voru fram í fjórum fyrstu ritunum um umhverfismál á íslensku, 1964–1974, bók Carsons, síðan Óbyggð og allsnægtum, þá Endimörkum vaxtarins og loks Heimi á helvegi. Nú eru liðnir nokkrir áratugir frá útkomu þessara bóka. Skemmst er frá því að segja, að þessar hrakspár hafa ekki ræst. Hugkvæmni mannsins hefur reynst miklu meiri en höfundar þessara rita trúðu. Gerir Björn Lomborg raunar ágætlega grein fyrir þessu í bók sinni, Hinu sanna ástandi heimsins.

Stephan G. orti, að í hrakspám væri oft fólgin ósk um vondar afleiðingar. Ég held, að önnur skýring sé líka til á hrakspám. Hún er, að þær séu settar fram til að ná völdum. Spámennirnir hræða okkur með einhverju óskaplegu, sem gerist, ef við flýtum okkur ekki að afhenda þeim völdin. Þeir láta eins og við séum í lífshættu og þurfum að rjúka niður í björgunarbátana undir leiðsögn þeirra.

Einnig er augljóst, að sumir setja fram hrakspár í ávinningsskyni. Þeir vilja fá fé til rannsókna sinna: Sögulegra er, að maður bíti hund en að hundur bíti mann, forvitnilegra, að heimurinn sé að farast, en muni ekki standa áfram. Þetta kom til dæmis nýlega fram í tölvuskeyti, sem fór fyrir misgánings til blaðamanns, þar sem höfundur skýrslu um ástand fiskistofna benti starfssystkinum sínum á, að þau gætu vakið athygli fjölmiðla með því að setja fram spá um yfirvofandi hrun þeirra, en annars yrði ekki á þau hlustað.

Einnig má minna á hneykslið, þegar því var haldið fram án haldbærra gagna, að jöklar væru að bráðna í Himalajafjöllum, og nýjasta dæmið er sú spá, sem sett var fram af einni stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 2005, að tugmilljónir „umhverfisflóttamanna“ yrðu skjögrandi um jörðina árið 2010.

Ritgerð mín er þáttur í rannsóknarverkefni, sem ég hef umsjón með í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og nefnist „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting“. Vinn ég það í samstarfi við þrjár rannsóknarstofnanir í Bandaríkjunum og Brasilíu.

Niðurstaða mín í þessari ritgerð er, að okkur beri að vernda umhverfið, en ekki friða það. Við eigum frekar að bæta það en friða, og það gerum við best með tækninýjungum og skynsamlegum leikreglum, til dæmis skilgreiningu eignaréttinda. Með því getum við tekið umhverfið með í reikninginn, gert fólk ábyrgð fyrir umhverfisspjöllum, en það, sem allir eiga, ber enginn ábyrgð á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband