Snordal

Þótt Sigurður Nordal prófessor væri einn óumdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, létu gárungarnir hann ekki í friði.  Á skólaárum sínum ritaði hann nafn sitt fyrst S. Nordal. Þá tóku skólabræður hans upp á því að kalla hann Snordal. Sigurður breytti nafninu í Sig. Nordal. Þá nefndu skólabræðurnir hann Signor Dal. Eftir þetta ritaði Sigurður jafnan nafn sitt fullt. Raunar kom norrænufræðingurinn Signor Dal fyrir í skopblaðinu Speglinum á fjórða áratug.

Nordal var að öllu jöfnu friðsamur, en lét samt ekki hlut sinn fyrir neinum, eins og hörð ritdeila hans við Jónas Jónsson frá Hriflu í upphafi fimmta áratugar ber vitni um.

Hann átti enn fremur til að gera neyðarlegar athugasemdir um menn. Til dæmis sá hann eitt sinn menn hópast að Jóni Helgasyni prófessor í sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn, en þá var Nordal sendiherra þar. Þá sagði hann: „Til eru tvenns konar fræðimenn, þeir, sem dettur eitthvað í hug, og hinir, sem vitna til þeirra.“ Jón Helgason þótti stafkrókafræðingur, nákvæmur, en ekki frumlegur.

Nordal sagði um Halldór Kiljan Laxness: „Ég er að vísu ekki einn þeirra, sem lesa orðabækur eins og reyfara.“ Hefur Nordal eflaust verið sömu skoðunar og Þórbergur Þórðarson, sem gagnrýndi Kiljan fyrir tilgerð  og kallaði stíl hans „hriflingabjargastíl“, þar eð hann ofnotaði sjaldgæf orð og skrýtin.

Fyrsti nemandinn, sem Sigurður brautskráði í norrænum fræðum, var Vilhjálmur Þ. Gíslason, síðar útvarpsstjóri. Sigurður var þó enginn aðdáandi Vilhjálms og sagði eitt sinn: „Nú, er hann ekki allra manna kjalfróðastur?“ Kjalfróðir eru þeir menn kallaðir, sem hafa lesið á fleiri bókartitla en í bókunum sjálfum.

Ég veit hins vegar ekki, um hvern Nordal sagði góðlátlega: „Ég ætla að trúa honum, meðan hann lifir.“ En mér er sagt, að sá hafi verið kunnur, erlendur fræðigarpur, sem hafi þótt heldur djarfur í kenningum. Kann einhver lesandi skil á manninum?

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2011 og sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010 og er enn sem fyrr tilvalin tækifærisgjöf.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband