Goðið sem brást

bilde_1091561.jpgGuðmundur Andri Thorsson er mér reiður, eins og sést af síðasta pistli hans í blaði þeirra Baugsfeðga. Hann er enn reiðari Einari Má Guðmundssyni, sem gerði snyrtilega upp við alla Baugspennana í lítilli bók á dögunum, Bankastræti 0.

Reiðastur er þó Guðmundur Andri sjálfum sér. Fyrir hrun var hann átrúnaðargoð margra bókhneigðra manna, sem litu upp til hans, töldu hann vaxandi höfund. En goðið brást. Guðmundur Andri fylgdi Baugsfeðgum að málum, þegar þeir ætluðu að leggja Ísland undir sig.

Guðmundur Andri skrifaði í blað þeirra Baugsfeðga 26. apríl 2004, þegar fyrirtæki þeirra var gagnrýnt fyrir heljartök á fjölmiðlum:

Hefði Baugur ekki tekið að fjárfesta á þessum markaði þá væru fjölmiðlar á Íslandi færri og einsleitari, hvort sem litið er á fréttaflutning, stuðning við póli­tísk öfl eða almennt yfirbragð. Eins og sérhver neytandi getur vitnað um þá hefur fjölbreytnin aukist – og er það vandamál?

Því er vel lýst í bók Björns Bjarnasonar, Rosabaug yfir Íslandi, hvernig tök Baugsfeðga á fjölmiðlamarkaðnum leiddu ekki til aukinnar fjölbreytni, heldur miklu frekar einsleitni. Bogesen átti plássið, og Beinteinn á Króknum skrifaði vel um hann til að missa ekki tréfótinn.

Guðmundur Andri skrifaði um lögreglurannsóknina í Baugsmálinu í blað þeirra Baugsfeðga 17. maí 2004:

Hafi þeir gerst sekir um eitthvað sem okkur almenningi er ókunnugt um þá ber að sækja þá til saka eftir hefðbundnum leiðum en það er ekki boðlegt að þeir skuli sæta ofsóknum mánuðum og jafnvel árum saman af hendi forsætisráðherra fyrir einhverjar sakir sem enginn fær botn í, einkum þegar athafnasemi þeirra beinist að vettvangi sem til langs tíma hafði einkennst af stöðnun, fákeppni, flokkshollustu og þýlyndi?

Því er líka vel lýst í bók Björns, hvernig Baugsfeðgar reyndu að mynda almenningsálit, sem síðan átti að hafa áhrif á dómara. Þó var annar Baugsfeðga að lokum sakfelldur fyrir efnahagsbrot og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Margt hefur síðan komið fram um hæpna gjörninga þeirra, pappírsfyrirtæki og málamyndasamninga. Þeir slá þeim Pétri Þríhross og Júel J. Júel við. En Baugsfeðgar áttu eins og Þríhrossið og Júel sína penna.

Við þurfum öll að vera sátt við okkur sjálf, við einhverja sögu okkar, og hún verður að ríma við sjálfsmynd okkar. Guðmundur Andri er að vonum ósáttur við sögu sína, því að hún rímar ekki við sjálfsmynd hans. Hvernig gat eitt helsta átrúnaðargoð vinstri manna á Íslandi orðið Baugspenni? Hvers vegna var hann í liði Bogesens, Þríhrossins og Júels? Af hverju reyndi hann að hnýta slaufu á saltfiskinn? Sagan um Guðmund Andra er saga um goð, sem brást.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband