Einar Már segir vinstri mönnum til syndanna

Bækur Einars Más Guðmundssonar, Bankastræti 0, og Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, komu út sama daginn. Þær eru ólíkar, en báðar fela í sér uppgjör við Baugstímann í íslenskum stjórnmálum, árin 2004–2008, þegar fjármálafurstarnir með Jón Ásgeir Jóhannesson í broddi fylkingar réðu öllu á Íslandi, forsetinn var klappstýra þeirra og Samfylkingin hegðaði sér eins og dótturfélag auðhrings.

Bók Einars Más er mjög vel skrifuð eins og við var að búast. Hann er ólíkt mörgum vinum sínum einlægur hugsjónamaður, sem blöskrar, hvernig aðrir vinstri menn hafa svikið stefnu sína.

Hvernig stendur á því, að Steingrímur J. Sigfússon, sem ólmaðist á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skuli vera fjármálaráðherra í ríkisstjórn, sem tekur við fyrirskipunum frá þessum sama sjóði?

Hvers vegna hefur Steingrímur afhent erlendum okurkörlum tvo bankana af þremur að nauðsynjalausu og þvert á markaða stefnu? Hvað gekk honum til?

Hvers vegna beitti Steingrímur sér fyrir því í Icesave-málinu, að ríkið tæki að sér að greiða skuldir óreiðumanna í stað þess að láta þá, sem lánuðu þeim, sitja uppi með tapið?

Einar Már veltir þessum spurningum fyrir sér án þess að komast að niðurstöðu. Hann nefnir engin nöfn (nema helst okkar Davíðs Oddssonar), en auðvitað er skeytum hans beint að þeim skáldum og rithöfundum, sem létu sjálfstæði sitt og reisn í skiptum fyrir „sálarlaust silfrið og goldinn verð“, svo að orðalag Kommúnistaávarpsins sé notað: Hallgrími Helgasyni, Einari Kárasyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Illuga Jökulssyni og öðrum Baugspennum.

Ólíkt þeim getur Einar Már horft um öxl án þess að roðna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband