27.5.2011 | 09:02
Rökleysur Egils Helgasonar
Egill Helgason bloggar um hina nýju bók Björns Bjarnasonar, Rosabaug yfir Íslandi. Kenning Egils er, að tvær klíkur hafi barist um Ísland af heift árin fyrir hrun og báðar verið jafnsekar um hrunið.
Það er augljóst, við hverja Egill á. Hann hefur oft nefnt þessar klíkur. Í annarri eru þeir Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og ég. Í hinni eru Baugsfeðgar, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes í Bónus, ásamt Pálma í Fons.
En þessi kenning Egils er rökleysa.
Hvernig getur Davíð Oddsson, sem varaði hvað eftir annað sem seðlabankastjóri við ofþenslu bankanna og skuldasöfnun Jóns Ásgeirs og klíku hans, verið sekur um hrunið?
Og hvernig getur Björn Bjarnason, sem reyndi sem dómsmálaráðherra að tryggja, að enginn væri hafinn yfir lög í landinu, verið sekur um hrunið?
Söfnuðu þeir skuldunum? Blekktu þeir bankana?
Ef einhver okkar þriggja var sekur, þá var það helst ég, sem hafði þá og hef enn þá sannfæringu, að hugkvæmnir og áræðnir kapítalistar geti við réttar leikreglur starfað öllum til góðs. En þá vanmat ég eflaust mátt hinna óskráðu leikreglna.
Hinar skráðu leikreglur á Íslandi voru hinar sömu og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. En hinar óskráðu leikreglur á Íslandi breyttust í hinum tryllta dansi í kringum gullkálfinn árin 20042008, þar sem ekki mátti á milli sjá, hvor dansaði af meiri tilþrifum, Bessastaðabóndinn eða Samfylkingin.
Margt olli auðvitað hruninu, til dæmis hin alþjóðlega lánsfjárkreppa allt frá 2007, skyndilegt og óvænt þrot Lehmann Brothers haustið 2008, andúð erlendis á örum uppgangi íslenskra banka, harkaleg framkoma Breta við Íslendinga og andvaraleysi Fjármálaeftirlits og ríkisstjórnar (þrátt fyrir margar viðvaranir Seðlabankans), en enginn fær efast um, að ein ástæða hrunsins var glannaskapur Jóns Ásgeirs og klíku hans.
Undir lokin skuldaði Jón Ásgeir um þúsund milljarða króna! Hann hefði tekið lán fyrir tannburstanum sínum, hefði hann getað, eins og Ármann Þorvaldsson komst að orði í fróðlegri bók um hrunið.
Að einhverju leyti var þessi glannaskapur Jóns Ásgeirs og klíku hans eðlislægur þeim (og sameiginlegur þeim og fjáraflamönnum erlendis), en að einhverju leyti var ýtt undir hann frá fjölmiðlum og dómstólum á Íslandi. Hinar óskráðu leikreglur breyttust.
Margir menn áttu sinn þátt í því, að hinar óskráðu leikreglur breyttust. Egill Helgason var því miður einn þeirra. En í stað þess að gera upp við fortíð sína reynir hann að endurskilgreina hana. Baugsmálið hafi ekki verið lögreglurannsókn í tilefni kæru, sem leiddi að lokum til dóms fyrir efnahagsbrot (sem var þó furðuvægur), heldur tvær klíkur að berjast.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook