Hver var Otto Katz?

nivelivesofottokatz.jpgMér varð gengið niður í bæ á dögunum, og þá rakst ég á bók í Eymundsson, sem ég vissi ekki einu sinni, að út hefði komið, en ég keypti mér strax til að lesa. Hún er um ævintýramanninn Otto Katz, sem einnig gekk undir nafninu Andre Simone. Heitir hún The Nine Lives of Otto Katz og er eftir rithöfundinn Jonathan Miles.

Otto Katz segir dálítið við þá sögu, sem ég segi í næstu bók minni. Hann fæddist og ólst upp í Bæheimi, sonur efnaðra gyðingahjóna, sem töluðu þýsku. Hann varð snemma kvennaljómi og átti vingott við Marlene Dietrich, á meðan þau bjuggu bæði í Berlín á dögum Weimarlýðveldisins (1918–1933).

Í Berlín kynntist Katz líka Christopher Isherwood og er ef til vill fyrirmyndin að einhverjum söguhetjum hans (kommúnistanum Bayer?) í bókunum Mr Norris Changes Trains og Goodbye to Berlin, en í þær tvær bækur er hin kunna kvikmynd Cabaret sótt.

Raunar halda sumir því fram, að Viktor Laszlo í Casablanca, sennilega einhverri bestu kvikmynd allra tíma, sé að einhverju leyti gerður eftir Otto Katz, einnig Kurt Muller í leikriti Lillians Hellmans, Watch over the Rhine, sem samnefnd kvikmynd var tekin eftir. Katz og Hellman voru góðkunningjar.

Otto Katz var aðstoðarmaður hins fræga áróðursmeistara kommúnista, Willis Münzenbergs, sem tók á móti Hendrik Ottóssyni og Brynjólfi Bjarnasyni í Moskvu 1920 og átti nokkur samskipti við fleiri íslenska kommúnista. Münzenberg sá um, að Halldór Kiljan Laxness yrði boðið til Rússlands haustið 1932.

Um skeið vann Katz með Arthur Koestler, sem seinna varð frægur rithöfundur og lenti eins og Katz í ýmsum ævintýrum, sumum lífshættulegum, í borgarastríðinu á Spáni.

Katz þýddi úr tékknesku á þýsku skáldsöguna Anna. Das Mädchen vom Lande eftir Iwan Olbracht, sem Einar Olgeirsson tók í ritdómi um Sölku Völku Laxness 1932 sem dæmi um „réttar“ bókmenntir, en ég benti á það við litla hrifningu Halldórseigendafélagsins íslenska, að Atómstöðin 1948 væri mjög sniðin eftir þeirri bók Olbrachts, sem Laxness hefur einmitt lesið í þýðingu Katz.

Þá gáfu íslenskir kommúnistar út eina áróðursbók Katz, sem hann skrifaði undir nafninu Andre Simone, en hún hét Evrópa á glapstigum í þýðingu Sverris Kristjánssonar.

Eftir stríð fluttist Katz til ættlands síns, Tékkóslóvakíu, og gerðist ritstjóri kommúnistablaðs, en var handtekinn í hreinsunum 1952 og hengdur. Lokaorð hans, áður en hann gekk í gálgann, voru nánast tekin orðrétt upp úr skáldsögu Koestlers, Myrkur um miðjan dag, og var Koestler sannfærður um, að hann hefði verið að lýsa yfir sakleysi sínu.

Er ótrúlegt að lesa skrif Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum um réttarhöldin yfir Katz, dr. Rudolf Margolius (sem hengdur var fyrir að gera viðskiptasamninga við Ísland) og öðrum fórnarlömbum stalínismans.

Miles, höfundur hinnar nýju bókar, hefur fengið aðgang að lögregluskýrslum, sem samdar voru austan hafs og vestan um þennan ævintýramann, svo að nokkur fróðleiksbrot bætast við vitneskju okkar um Otto Katz og hinn mikla harmleik heimsins á miðri tuttugustu öld, þar sem hann gegndi sínu hlutverki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband