28.4.2011 | 08:38
Þokulúður Morgunblaðsins
Sigurður A. Magnússon er einn orðskárasti rithöfundur landsins. Er mér minnisstætt, þegar Sverrir stormsker tók við hann útvarpsviðtal og hafði með sér rommflösku í upptökuna. Því drjúgar sem Sigurður saup af veigunum því orðljótari varð hann um ýmsa menn, aðallega þó Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og mig. Getum við eflaust þakkað fyrir að enginn verður með orðum veginn, eins og fornmenn kváðu.
Þegar Sigurður var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins varð hann fórnarlamb hrekks sem vakti þjóðarathygli. Tveir blaðamenn á Vikunni, Jakob Þ. Möller og Gylfi Baldursson, höfðu á tveimur nóttum vorið 1963 samið nútímaljóð undir heitinu Þokur og fengið þriðja mann til að bera verkið undir ýmsa bókmenntaspekinga. Var Sigurður meðal þeirra, sem luku lofsorði á kveðskapinn.
Helgi Sæmundsson, ritstjóri Alþýðublaðsins, sæmdi Sigurð umsvifalaust heitinu Þokulúður Morgunblaðsins, en Loftur Guðmundsson rithöfundur orti:
Dæmdi sig hinn dóma strangi
dárann mesta í glópa flokki.
Alltaf hefði Mera-Mangi
muninn þekkt á skeiði og brokki.
Faðir Sigurðar, Magnús Jónsson, sem gekk stundum undir nafninu Mera-Mangi, var kunnur hestamaður í Reykjavík á sinni tíð.
Raunar á hrekkur þeirra Jakobs og Gylfa við Sigurð A. Magnússon og aðra íslenska bókmenntaspekinga sér erlenda fyrirmynd. Árið 1946 höfðu tveir sænskir læknanemar, Torgny Greitz og Lars Gyllensten, samið á fimm klukkustundum bók með nútímaljóðum, sem þeir nefndu Camera obscura (Í myrkri). Höfðu þeir raðað saman orðum, nánast af handahófi. Hinn kunni útgefandi Bonniers samþykkti að gefa bókina út, og hlaut hún lof sænskra bókmenntaspekinga. Vakti málið hins vegar kátínu sænsks almennings, þegar upp komst.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 23. apríl og er sótt í ýmsa staði í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er enn sem fyrr tilvalin gjöf við fermingu eða útskrift.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Facebook