24.4.2011 | 12:29
Bréfin sem DV þorir ekki að birta
DV hefur orðið tíðrætt um mig síðustu vikur, eins og fáir vita. Hefur blaðið birt margvíslegar fjarstæður um mig, enda lítt hirt um að sannreyna staðhæfingar sínar. Þegar ég hef svarað þeim, hefur það ekki birst. Til dæmis skrifaði Jóhann Hauksson mér eftirfarandi tölvubréf 7. apríl:
Ég hef lesið skýrslu þína og sé að nafn Stefáns Ólafssonar kemur þar mjög oft fyrir.
Ég hafði samband við hann og hann sagði meðal annars: Hannes Hólmsteinn tilkynnti mér reyndar snemma á árinu 2007 að ákveðið hefði verið á fundi að fara í víðtæka herferð gegn skrifum mínum um skatta og aukinn ójöfnuð til þess að vernda arfleifð Davíðs Oddssonar. Fyrir hönd DV spyr ég því eftirfarandi spurninga:
1. Kannast þú við að hafa sagt þetta?
2. Ef svo: Hvaða fund varst þú að tala um?
3. Ef svo: Hvernig tengist þetta arfleifð Davíðs Oddsonar ?
Mér þætti vænt um að fá svar frá þér í dag.
Ég svaraði honum klukkustund síðar (strax og ég hafði séð bréfið):
Ég kannast ekki við þetta. Ég held, að þetta sé einhver ímyndun í Stefáni. Til eru menn, sem telja sjálfum sér trú um, að aðrir hafi ekkert þarfara að gera en sitja á löngum fundum um þá. Slíkir menn eru venjulega ekki teknir ýkja alvarlega.
Ég hef hins vegar sagt Stefáni Ólafssyni það oftar en einu sinni, að ég tel það akademíska skyldu mína að upplýsa um ýmsar missagnir hans.
Þar á meðal má nefna, að hann réðst 2007 harkalega á fjármálaráðuneytið fyrir að falsa lífeyristekjur á Íslandi og segja þær of háar. Í ljós kom, að Stefán hafði deilt í heildarlífeyristekjur með fjölda manna á lífeyrisaldri, en ekki með fjölda lífeyrisþega. Þannig fékk hann aðra og lægri tölu en ráðuneytið (en ráðuneytið studdist við útreikninga norrænu tölfræðinefndarinnar). Á Íslandi hagar því svo til, að fjöldi manna (fimm þúsund manns árið 2004) eru á lífeyrisaldri, en taka ekki lífeyri og eru þess vegna ekki lífeyrisþegar.
Það er ekki ónýtt að geta lækkað tölur með því að bæta jafnan fimm þúsund við í deilarann. Olíufursti einn var kallaður Mister Five Per cent, af því að hann hirti fimm prósenta hlut úr fyrirtækjum sínum. Eins mætti kalla Stefán Ólafsson Mister Five Thousand, því að hann bætir fimm þúsund við í deilarann, þegar hann vill lækka tölu.
Annað dæmi um missagnir Stefáns Ólafssonar er, að hann reiknaði vitlaust út Gini-stuðul fyrir Ísland 2004, eins og ég hef bent á, og ofmat þannig ójafna tekjuskiptingu á Íslandi. Þetta er allt rakið vandlega í skýrslu minni. Þar er upplýst um margar fleiri missagnir hans.
Annars finnst mér, að þú sem blaðamaður ættir frekar að spyrja Stefán, hvers vegna hann brást trúnaði sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands vorið 1996 og sagði þeim Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni frá könnun, sem Hreinn Loftsson hafði látið hann gera um sigurlíkur ýmissa manna í forsetakjöri. Stefán var auðvitað bundinn trúnaði um þessa könnun. Matthías skrifaði þetta í dagbók sína, sem kunnugt er. Ritstjóri þinn, Reynir Traustason, skrifaði dálítið um það mál, eftir að dagbókarfærsla Matthíasar birtist á Netinu, en síðan dó það út.
En ég sé á þessum ímyndunum og órum, að þið Stefán Ólafsson eigið það sameiginlegt að hafa Davíð Oddsson á heilanum. Ég veit ekki, hvernig unnt er að lækna þetta heilkenni. Ég vona, að það rjátlist af ykkur með aldrinum.
Af þessu birti Jóhann aðeins fyrstu setningarnar (um að ég kannaðist ekki við þessi ummæli, sem eftir mér voru höfð) í opnugrein um mig í DV helgina 8.10. apríl.
Enn fremur skrifaði ég 11. apríl Birni Teitssyni, sem skrifaði sérstaka Nærmynd af mér í þessa opnugrein helgina 8.10. apríl:
Þú birtir Nærmynd af mér í helgarblaði DV 8.10. apríl sl. Þú leitaðir ekki til mín til að sannreyna neitt, eins og eðlilegt hefði verið, svo að ýmislegt er rangt eða ónákvæmt í frásögn þinni. Með tilvísun til 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands fer ég fram á það, að þú leiðréttir eftirfarandi.
1. Þú segir, að nýjasta hneykslið, sem mér tengist, sé samningur fjármálaráðuneytisins frá 2007 við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um rannsóknir á áhrifum skattbreytinga, sem ég hafði umsjón með. Það var ekkert hneyksli, og fréttin um samninginn er ekki ný, heldur kom fram fyrir mörgum mánuðum í svari Jóhönnu Sigurðardóttur við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Auk þess var frá þessu greint í bók minni, Áhrifum skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út árið 2009.
2. Þú segir, að bent hafi verið á stórfelldan ritstuld minn í ævisögu Halldórs Kiljans Laxness. Það er ekki rétt. Ég hlaut dóm í Hæstarétti fyrir brot á höfundarlögum, þar eð ég notaði æskuminningar Laxness á sama hátt og hann notaði sjálfur texta frá öðrum, þ. á m. dagbækur Magnúsar Hjaltasonar. Ég gerði þetta í góðri trú, en játa auðvitað, að ég hefði unnið öðru vísi úr þessum heimildum, hefði ég vitað, að ég væri að brjóta höfundarlög.
3. Þú minnist á skipun mína í stöðu lektors 1988. Það kemur ekki fram hjá þér, að tveir meðumsækjendur mínir um þá stöðu kærðu veitingu stöðunnar til umboðsmanns Alþingis og fengu fjárstyrk frá Háskólanum til að reka málið þar. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert hefði verið athugavert við veitingu stöðunnar eða vinnubrögð ráðherra. Síðan fékk ég framgang með fullu samþykki félagsvísindadeildar í stöðu dósents og prófessors.
4. Þú segir, að upphaf fræðimannsferils míns sé í raun á huldu, þar sem hvorki sé fáanleg til lestrar B. A. ritgerð mín, sem sé týnd, né cand. mag. ritgerð mín, sem sé lokuð. Þetta eru fréttir fyrir mig. Ég tel mjög einkennilegt, ef B. A. ritgerð mín, sem var um söguspeki Karls Marx, er týnd, og langt er, síðan ég leyfði afnot af cand. mag. ritgerð minni um sögu Sjálfstæðisflokksins. Hvorug ritgerðin er neitt launungarmál. Mun ég óska eftir skýringum frá Þjóðarbókhlöðu á þessu furðumáli.
5. Þú segir: Bækur Hannesar hafa ekki ratað inn á lista yfir mestu seldu bækurnar á Íslandi. Það er ekki rétt. Bókin Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða var söluhæst allra bóka fyrir jólin 1996. Hygg ég, að hún hafi selst í hátt í átta þúsund eintökum. Tvær aðrar bækur eftir mig hafa verið á metsölulistum, Jón Þorláksson forsætisráðherra 1992 og Íslenskar tilvitnanir 1994. Ég tek það þó fram, að sala bóka er ekki nauðsynlega eini mælikvarðinn á gæði þeirra.
6. Þú segir hins vegar, að kennslubækur mínar hafi selst vel, þar eð þær séu kenndar í námskeiðum mínum. Þær bækur hafa því miður selst miklu síður en þær, sem fyrr eru nefndar, svo að þetta er ekki rétt.
Ég læt þetta nægja, þótt margt megi annað segja um þessa grein þína.
DV hefur ekki enn birt þessar leiðréttingar mínar. DV-mönnum er að vísu vorkunn. Þeir eru skýrt dæmi um sannleiksgildi hins gamla málsháttar, að flas er ekki til fagnaðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Facebook