22.4.2011 | 18:26
Á að leggja sjávarútveg á landsbyggðinni í rústir?
Átta framkvæmdastjórar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja skrifa í Morgunblaðið 20. apríl grein undir fyrirsögninni Forsætisráðherra, hví þessi fjandskapur?
Benda þeir á, að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra virðist fjandskapast við arðsamasta atvinnuveg á Íslandi, sjávarútveg. Eins og Þráinn Eggertsson prófessor og margir fleiri hafa bent á, hefur Íslendingum tekist fárra þjóða að reka skilvirkan sjávarútveg. Víðast annars staðar eru fiskveiðar reknar með tapi, baggi á hverju þjóðarbúi.
Ástæðan til þess, að þetta hefur tekist hér, er einföld. Hagsmunir sjávarútvegs og þjóðar fara saman. Forsvarsmenn í sjávarútvegi hafa í höndum ótímabundnar og framseljanlegar aflaheimildir og geta þess vegna skipulagt veiðar sínar skynsamlega. Þeir geta hugsað til langs tíma, hagrætt í rekstri án ónauðsynlegrar óvissu.
Þessum aflaheimildum var fyrst úthlutað í árslok 1983, en kerfið sjálft komst á vorið 1990, og stóðu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon bæði að því, enda bæði þá stjórnarþingmenn.
Það er þögult kraftaverk, sem þessir átta framkvæmdastjórar í íslenskum sjávarútvegi benda á í grein sinni, að Íslendingar gátu minnkað veiðar sínar úr þorskstofninum á Íslandsmiðum úr 450 þúsund lestum árið 1981 niður í 160 þúsund lestir um þessar mundir, án þess að allt færi hér á hvolf.
Til þess er hins vegar einföld ástæða, að Jóhanna beinir nú spjótum sínum að sjávarútvegi. Það hefur löngum gefist lýðskrumurum vel að reyna að sameina fólk gegn einhverjum ímynduðum óvini. Kommúnistar gátu kennt borgarastéttinni um allt, sem miður fór, nasistar gyðingum. Hér á Íslandi hefur Jóhanna valið sægreifana í þetta hlutverk blórabögguls, fórnarlambs.
En það eru engir sægreifar lengur í sjávarútvegi. Þeir hættu allir veiðum, seldu kvóta sinn, fóru í land. Eftir standa hagsýnir og duglegir menn, sem keyptu nánast allan sinn kvóta fullu verði. Á að refsa þeim fyrir að halda áfram sjávarútvegi, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar?
Í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur gætir líka lítilsvirðingar á því fólki, sem býr úti á landsbyggðinni. Ef reynt verður að gera arðinn í sjávarútvegi upptækan, þá mun hann ekki aðeins minnka verulega frá því, sem nú er, heldur felur það í sér stórkostlega millifærslu fjármuna frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Auðlindaskattur eða fyrningarleið er ekkert annað en skattur á landsbyggðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook