21.4.2011 | 09:39
Sjávarútvegur á landsbyggðinni verður að verja sig
Jóhanna Sigurðardóttir og lið hennar ræðst nú af offorsi á þann atvinnuveg, sem mestu máli skiptir um endurreisn Íslands, sjávarútveginn á landsbyggðinni. Í stað þess að hlynna að þessum atvinnuvegi á að mynda um hann óvissu, torvelda langtímahugsun í honum, leggja hann í raun í rúst.
Þetta lið segist ætla að taka kvótana af sægreifunum. En sægreifarnir eiga ekki lengur neina kvóta. Þeir hafa fyrir löngu selt þá og farið í land. Um og yfir 90% af kvótunum hafa verið keypt fullu verði. Hvers vegna í ósköpunum á að refsa þeim, sem eftir urðu í greininni, svipta þá möguleikum til að skapa arð sjálfum sér og allri þjóðinni til góðs?
Ef kvótarnir verða gerðir upptækir, þá merkir það aðeins, að stórkostleg tekjutilfærsla verður frá sjávarútvegi til ríkisins, frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. En gallinn er síðan sá, að í sjálfri tilfærslunni munu tekjurnar rýrna. Verr verður af stað farið en heima setið. Allir tapa að lokum.
Sjávarútvegurinn á landsbyggðinni greiðir þegar tekjuskatt og raunar líka auðlindagjald. Þjóðin nýtur góðs af því, en aðallega nýtur hún óbeint góðs af því, að sjávarútvegur er hér arðsamur ólíkt því, sem gerist í flestum öðrum löndum.
Kosturinn við núverandi kerfi, þar sem kvótar eru framseljanlegir og ótímabundnir, er, að fólkið í greininni öðlast langtímahugsun. Það hefur sjálft hag af því, að arðurinn af auðlindinni verði hámarkaður til langs tíma litið.
Dr. Þráinn Eggertsson prófessor, sem er einhver virtasti fræðimaður okkar Íslendinga og hefur í rannsóknum sínum sérstaklega lagt fyrir sig stofnanir og leikreglur, segir í viðtali við Frjálsa verslun:
En nú í miðri kreppunni er rætt um að kalla inn kvótana og selja þá aftur til útgerðanna. Flestir þeir sem fengu kvótana upphaflega hafa framselt þá til aðila sem nú stunda veiðar. Að innkalla og endurselja kvótana er í raun ómerkilegur þjófnaður. Ríkisvaldið hyggst knýja þá sem keypt hafa kvótana fullu verði til að kaupa þá aftur. Getur þjóðarsálin veikst? Umræðan á Íslandi um kvótakerfið er óheilbrigð þráhyggja. Í miðri stórkreppu er það stefna ríkisstjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarútveginum sem er helsti lykillinn að efnahagsbata.
Sjávarútvegurinn á landsbyggðinni verður að verja sig gegn hinum hrokafullu menntamönnum í Reykjavík, sem vilja leggja hann í rústir, af því að þeir telja ranglega, að flytja megi arðinn óskiptan frá útgerðarfyrirtækjum í ríkissjóð og að þeir muni sjálfir ætíð ráða úthlutunum úr ríkissjóði.
Þess vegna var eðlilegt og sjálfsagt, að Samtök atvinnulífsins setti það skilyrði fyrir samningum, að ekki yrði haldið áfram að ráðast á undirstöður atvinnulífsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook