Fjölmennur fundur og fjörugar umræður

Mér til nokkurrar undrunar var fjölmenni á fyrirlestri mínum um „Evrópusambandið og hvalveiðar Íslendinga“ í Háskóla Íslands í hádeginu í gær. Ég hafði búist við öðru daginn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-málið, eitt mesta hitamál fyrr og síðar.

Ég fór yfir fræðilegan rökstuðning fyrir hvalveiðibanni, eins og kanadíski stærðfræðingurinn Colin W. Clark setti hann fram í Science 1973, og svör við honum eftir þrjá hagfræðinga, sem birtust í sama tímariti 2007. Einnig rakti ég stuttlega átök um hvalveiðar Íslendinga og niðurstöður vísindamanna um ástand hvalastofna á Íslandsmiðum.

Ég benti á, að hvalir við Ísland éta sex milljónir lesta af ýmissi fæðu, mestmegnis krabbadýr, en einnig fisk, þar á meðal loðnu og þorsk. Deilt er um það, hvort hvalirnir éti þannig frá okkur mönnunum, en ég benti á eitt sjónarmið, ef svo reynist ekki vera. Þá afla hvalir fæðu, sem við mennirnir erum ekki færir um með núverandi tækni. Þá má líta á hvali sem fullkomnar leitarvélar og matvinnslustöðvar. Þeir finna fæðu, sem við finnum ekki, og breyta henni í mat, sem við getum síðan etið, hvalkjötið.

Þetta skiptir máli í heimi, þar sem matvælaverð hefur tekið snarpan kipp upp á við. Hinir björtu tímar matvælagnóttar í framhaldi af grænu byltingunni á Indlandi og víðar kunna að vera liðnir. Þá skiptir mannkynið allt máli að nýta hið mikla forðabúr, sem hafið er.

Jafnframt benti ég á, að rétta ráðið til að leysa ágreining hvalfriðunarsinna og hvalveiðimanna (og annarra þeirra, sem nýta hvali óbeint) væri eignarréttur eða einkanýtingarréttur á hvalastofnum. Þá fara hvalir í frjálsum viðskiptum í hendur þeirra, sem best kunna að meta þá. Ég tók þó fram, að þetta mál væri flóknara en virtist í fljótu bragði.

Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum. Grímur Valdimarsson hjá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, minnti á, að á umhverfisráðstefnunni í Rio de Janeiro 1992 var samþykkt, að þjóðir heims hefðu rétt til sjálfbærrar nýtingar auðlinda sinna. Þetta er mjög mikilvægt. Við Íslendingar höfum rétt til sjálfbærrar nýtingar hvalastofna eins og annarra auðlinda okkar. Ef þessi réttur er tekinn af okkur í hvalveiðum, þá er þess skammt að bíða, að sami réttur verði tekinn af okkur á öðrum sviðum.

Þess vegna megum við alls ekki afsala okkur réttinum til hvalveiða, eins og Evrópusambandið er líklegt til að krefjast í aðildarviðræðum.

Þessi fyrirlestur minn er þáttur í rannsóknarverkefni mínu, „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.“


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband