Hið besta á Netinu um Icesave-málið

Ég lagðist í sprang um Netið til að kynna mér betur hinar fjörugu umræður þar um Icesave-samningana. Ég nam sérstaklega staðar við orð tveggja lögfræðinga og tveggja listamanna.

Skúli Magnússon, sem er einn skarpasti ungi lögfræðingurinn okkar og nú ritari EFTA-dómstólsins, útskýrði mjög vel í Silfri Egils, að íslenskir dómstólar hafa lögsögu um skaðabætur í málinu, ef einhverjar verða.

Reimar Pétursson, sem þykir mjög slyngur málflutningsmaður, fór afar skýrt yfir lögfræðilegar hliðar málsins á fundi sjálfstæðismanna í Vesturbæ.

Það er líka gaman að hlusta á einn okkar snjallasta leikara, Egil Ólafsson, tala sinni þrautþjálfuðu, mjúku og þó karlmannlegu rödd fyrir málstað, sem hann er auðheyrilega sannfærður um.

Ekki var síður um vert að lesa vísur Þórarins Eldjárns skálds um Icesave-málið, þar sem hann segir það jákvætt að segja nei við Icesave-samningunum.

Ég hef verið virkur í stjórnmálum í rösk fjörutíu ár og horft þar upp á margt. Mér koma þeir Frosti Sigurjónsson og Jón Helgi Egilsson, sem vilja segja nei og veita ásamt öðrum Advice-hreyfingunni forystu, fyrir sjónir sem einlægir hugsjónamenn, sem vilja gera borgaralegu skyldu sína. Ekkert annarlegt vakir fyrir þeim, að því er  mér virðist. Þeir ganga ekki erinda neins, sem ég veit að minnsta kosti um, og sitja ekki fastir í gamlir skotgröfum eins og stundum vill verða með okkur hina. Ekki er úti um Ísland, á meðan slíkir menn rísa upp og berjast fyrir því, sem þeir telja rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband