Fróðleg skoðanakönnun

Bretar gerðu Íslendingum mikinn óleik haustið 2008, þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa færðist í aukana. Þá synjuðu þeir Singer & Friedlander einum breskra banka um fyrirgreiðslu og lokuðu honum raunar. Bankinn var í eigu Kaupþings. Og þeir lokuðu ekki aðeins hinu breska útbúi Landsbankans, heldur komu í veg fyrir allar þær millifærslur fjár milli Íslands og annarra landa, sem fóru í gegnum Lundúnir, og settu Landsbankann á opinberan lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana!

Þessi framkoma var dæmalaus, sérstaklega við gamlan bandamann í Atlantshafsbandalaginu, sem hafði tekið Bretum vel í stríðinu þrátt fyrir heimildarlaust hernám þeirra. Hátt í fimm hundruð íslenskir sjómenn týndu lífi í stríðinu, þegar þeir sigldu til Bretlandseyja með fisk ofan í bresku þjóðina á ögurstund. Þótt ég byggi í fjögur ár á Bretlandi og kynni þá vel að meta breskar hefðir, blöskraði mér framferði þeirra í lánsfjárkreppunni. Þá hjó sá, er hlífa skyldi.

Nú hefur Andríki gert skoðanakönnun, sem sýnir, að mikill meiri hluti landsmanna vill höfða mál gegn Bretum fyrir að hafa beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Furðu sætir hins vegar, hversu undirgefnir sumir íslenskir stjórnmálamenn eru nú Bretum. Þeir sættu sig ekki aðeins við þessa framkomu, heldur vilja ólmir greiða reikninga, sem bresk stjórnvöld senda íslenskum almenningi fyrir ýmis útlát sín, þegar þau töldu sig vera að girða fyrir áhlaup á breska banka.

Þann reikning eiga Bretar ekki að senda íslenskum almenningi, heldur hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp samkvæmt evrópskum reglum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband