27.3.2011 | 20:47
Ólafur afturgenginn
Halldóra B. Björnsson var skáldkona í Reykjavík. Hún var uppi 19071968 og starfaði lengi á skrifstofu Alþingis. Hún var róttæk í stjórnmálaskoðunum og einn af stofnendum Félags byltingarsinnaðra rithöfunda árið 1933.
Svo sem nærri má geta, var Halldóra lítt hrifin af leiðtoga Sjálfstæðisflokksins, Ólafi Thors. Haustið 1946 sprengdu sósíalistar Nýsköpunarstjórn Ólafs, sem þeir höfðu átt aðild að, eftir að hann hafði gert svokallaðan Keflavíkursamning við Bandaríkjastjórn. Máttu sósíalistar, sem þá fylgdu Stalín að málum, ekki heyra minnst á neins konar samstarf við Bandaríkin.
Ólafur reyndi í lengstu lög að halda stjórninni saman, en gafst loks upp og baðst lausnar. Þá orti Halldóra vísu, sem varð strax fleyg, þótt ekki væri upplýst, hver höfundurinn væri:
Átt hef ég árum saman
á því bjargfasta trú,
að Ólafur gæfist illa,
en upp ekki fyrr en nú.
Reyndi Ólafur samt af kappi að endurreisa stjórnina eftir afsögn sína, og áttu sumir von á því, að það heppnaðist. Starfsbróðir Halldóru á skrifstofu Alþingis var Andrés Eyjólfsson í Síðumúla, sem síðar settist á þing fyrir Framsóknarflokkinn. Hann orti til Halldóru:
Góð er að vonum þín vísa,
en vanhugsað niðurlag:
Ólafur upp mun rísa
aftur jafnvel í dag!
Halldóra varð snögg til svars:
Góður er sérhver genginn,
geti hann legið kyrr,
en Ólafur afturgenginn
er Ólafur verri en fyrr.
Ólafi tókst þó ekki að endurreisa Nýsköpunarstjórnina. Hann myndaði aftur stjórn þremur árum síðar, haustið 1949.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. mars og er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, en er auðvitað tilvalin fermingargjöf um þessar mundir.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:49 | Facebook