Þokkafull risadýr hjá Félagsvísindastofnun

afrikufill.jpgÁrsfundur Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands var haldinn í gær, föstudaginn 25. mars, síðdegis í Öskju, náttúrufræðihúsinu rétt sunnan af Norræna húsinu, stofu N-132. Þar fluttum við nokkur, sem höfum umsjón með rannsóknarverkefnum fyrir stofnunina, örerindi, fimm mínútur hvert, um einhvern þátt í verkefnum okkar. Ég hef umsjón með rannsóknarverkefninu:

Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.

Ég ræddi á mínum fimm mínútum, kl. 15.50, strax eftir kaffihlé, um efnið:

Þokkafull risadýr: Friðun eða verndun?

Með „þokkafullum risadýrum“ á ég við það, sem Englendingar kalla „Charismatic Megafauna“, en það eru risavaxin dýr, sem flestir vilja vernda og sumir jafnvel friða með öllu. Ég ræddi sérstaklega um fíl, nashyrning og hval í þessu örerindi (en í föstudagshádegi í þarnæstu viku, 8. apríl, flyt ég síðan sérstakan, opinn fyrirlestur og miklu rækilegri í Háskólanum um Evrópusambandið og hvalveiðar).

Hvers vegna hika menn við að skjóta fíla, eins og Orwell lýsir vel í frægri smásögu, en drepa umsvifalaust lítil dýr, eins og rottur og kóngulær? Hvers vegna er haförninn friðaður, en svartbakur hvarvetna eltur uppi og drepinn? Engar sjónvarpsmyndir eru vinsælli en þær, sem sýna ljón drepa antílópur. Þar sést náttúran, rauð um kjaft og kló.

Ég leiddi raunar í örerindi mínu í gær rök að því, að best sé að vernda þokkafull risadýr með því að útvega þeim verndara. Það gerist með því að afhenda þeim, sem næstir standa dýrunum, nýtingarréttinn yfir þeim. Þá halda þeir nýtingunni í skefjum. Hitt er árangurslaust að reyna að friða þau.

Þetta sést á dæmi fílsins og nashyrningsins. Viðskiptabann á fílabein og nashyrningahorn hefur ekki náð tilgangi sínum. Veiðiþjófnaður er algengur á slóðum þeirra í Afríku og síðan smygl, enda er ríkisvald þar veikt, spilling landlæg og ríkin flest fjárvana. Íbúar á þeim slóðum, þar sem þessi þokkafullu risadýr hafa bólfestu, þurfa að hafa hag af því að gæta þessara dýra.

Hvalur er þokkafullt risadýr eins og fíll og nashyrningur, en þar þarf að leysa ágreining hvalveiðimanna og hvalfriðunarsinna.

Mér hefur fundist afar skemmtilegt að vinna að þessum þætti rannsóknarverkefnis míns. Við þetta hafa rifjast upp fyrir mér dýrlegir dagar í Suður-Afríku haustið 1987, er ég fór í skoðunarferð eða safari um Mala-Mala, einkagarð við hlið hins víðlenda Kruger-garðs, þar sem ég horfði opinmynntur á dýrin úr barnabókunum, sem ég hafði lesið ungur, spretta fram af síðum þeirra og lötra letilega fram hjá mér í ljósaskiptunum, ljónin, fílana, gíraffana, blágnýinn (wildebeest) og önnur dýr gresjunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband