Hver er heimildarmaðurinn?

Ég birti hér í gær svör mín við spurningum blaðamanns DV um greiðslur frá Landsbankanum 2007–2008 til kynningar- og ráðgjafarfyrirtækis, sem ég rek. Ekkert var athugavert við þessar greiðslur, og þess var sérstaklega getið á heimasíðu verkefnisins, sem styrkt var, að Landsbankinn var styrktaraðili, jafnframt því sem þessar greiðslur komu að sjálfsögðu fram í rekstrarreikningi fyrirtækisins og á skattframtali þess.

Þetta var með öðrum orðum engin frétt. En samt er frétt í þessu. Hún er, að einhver aðili, karl eða kona, sem hefur síðustu vikur haft aðgang að bókhaldsgögnum Landsbankans frá 2007 og 2008, hefur misnotað þennan aðgang sinn í því skyni að veita blaðamanni DV upplýsingar. Mér virðist, að blaðamaðurinn hafi ekki haft fyrir framan sig ljósrit af þessum bókhaldsgögnum. Upplýsingar hans um greiðslurnar sjálfar voru ekki nógu nákvæmar til þess. En einhver hefur haft tal af honum (eða ritstjóra blaðsins) og lesið upp fyrir hann úr gögnunum eða sagt honum frá þeim. Til dæmis er rétt, að á reikningum frá fyrirtæki mínu er nefnt „kynningarátak vegna skattalækkana“.

Það á að vera hægðarleikur fyrir Landsbankann að komast að því, hver hefur síðustu vikur haft aðgang að þessum tilteknu bókhaldsgögnum. Pappírseintökin eru væntanlega geymd í læstu herbergi og skráð, hverjir fá aðgang að þeim. Ef til eru rafræn eintök, þá má áreiðanlega rekja í tölvu, hverjir hafa opnað þau skjöl síðustu vikur. Hver er heimildarmaður DV? Hvaða maður innan Landsbankans telur sér hag í að fletta ýmsum bókhaldsgögnum og lauma síðan upplýsingum úr þeim til DV? Eða er það maður utan bankans, sem hefur tímabundinn aðgang að þessum gögnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband