Furðuskrif Indriða um skatta

Indriði H. Þorláksson á um þessar mundir í ritdeilu við Finn Oddsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Indriði heldur því fram, að skattar hafi lækkað, en Finnur, að þeir hafi verið hækkaðir.

Þetta er gömul deila, og hefur Finnur rétt fyrir sér í henni, þótt satt sé, að skattar hafi lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu. Stjórnvöld hafa hækkað skatta, eins og raunar allir vita.

Ástæðan til þess, að skattar hafa lækkað sem  hlutfall af landsframleiðslu, er, að skattar lækka sjálfkrafa í niðursveiflu og hækka sjálfkrafa í uppsveiflu.

Þetta sést við örlitla umhugsun. Þegar menn hafa hærri tekjur vegna uppsveiflu, greiða þeir hærra hlutfall tekna sinna í skatt (tekjur þeirra umfram skattleysismörk eru hærri hluti heildartekna þeirrra), því hærra hlutfall sem tekjurnar eru hærri.

Og þegar menn hafa hærri tekjur, kaupa þeir meira af margvíslegri vöru, sem opinber gjöld eru lögð á. Innflutningur stóreykst.

Fyrirtæki, sem áður voru rekin með tapi, eru í uppsveiflu rekin með gróða, svo að þau greiða tekjuskatt, en greiddu áður engan tekjuskatt.

Inn í ríkissjóð streymir því fé, sem er afleiðing af uppsveiflunni, en hvorki vísvitandi skattahækkana né skattalækkana.

Hið öfuga gerist í niðursveiflu. Þegar menn hafa lægri tekjur, greiða þeir lægra hlutfall tekna sinna í skatt og kaupa minna af margvíslegri vöru, sem opinber gjöld eru lögð á.

Fjárstraumurinn inn í ríkissjóð minnkar því sjálfkrafa. Hlutfall skatta af landsframleiðslu lækkar sjálfkrafa.

Í niðursveiflu léttist því skattbyrðin sjálfkrafa. Fyrirtæki, sem áður var rekið með gróða, er nú rekið með tapi. Það greiðir engan tekjuskatt. Skattbyrði þess hefur lést. En er það þetta, sem Indriði vill? Maður, sem áður hafði góðar tekjur, hrapar niður í sömu tekjur og nemur skattleysismörkum. Hann greiðir engan tekjuskatt. Skattbyrði hans hefur lést. En er það þetta, sem Indriði vill?

Hitt er síðan annað mál, að stjórnvöld 1991–2007 lækkuðu sjálf markvisst skatta, en stjórnvöld frá 2008 hafa markvisst hækkað skatta að ráðum Indriða H. Þorlákssonar, þótt með því tefji þau nauðsynlega endurreisn atvinnulífsins.

Indriða H. Þorlákssyni nægir hins vegar ekki að þyngja skattbyrði Íslendinga vísvitandi, um leið og hann beitir reiknibrellum til að létta hana á pappírnum, heldur reyndi hann á síðasta ári að troða upp á Íslendinga stórkostlegum skuldabagga, þegar hann var ásamt öðrum viðskiptasnillingi, Svavari Gestssyni, aðalsamningamaðurinn í fyrstu Icesave-deilunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband