Misráðnar úrsagnir

Ég er ósammála mínum ágætu flokksbræðrum, Andrési Magnússyni og Skafta Harðarsyni, sem sagt hafa sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna stuðnings þingflokks Sjálfstæðismanna við Icesave-samning ríkisstjórnarinnar.

Það er miklu heppilegra að starfa inni í Sjálfstæðisflokknum og reyna þar að hafa áhrif á stefnumörk og framboð en sitja einhvers staðar úti í horni, utanflokks, og muldra niður í bringu.

Aðalatriðið í Icesave-málinu er auðvitað, hversu gersamlega þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon vanræktu að gæta hagsmuna Íslands í samningunum. Þau gerðu fyrst samninga, sem þau tóku fulla stjórnmálaábyrgð á, sem hefðu kostað Íslendinga um 400 milljörðum meira en þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir.

Sjálfstæðismenn eiga að einbeita sér að baráttunni við þá, sem reyna að breyta Íslandi í Sovét-Ísland. Þar er þörf á mönnum eins og Andrési og Skafta. En þar er líka þörf á mönnum eins og Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal. Þau verða að veita öfluga stjórnarandstöðu. Þau þurfa að færa sterkari rök en ég hef séð fyrir því að liðsinna stjórninni — stjórninni, sem hrakti einn fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins úr embætti og dró annan fyrrverandi formann fyrir Landsdóm — í Icesave-málinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband