7.2.2011 | 13:46
Óumdeildasti Íslendingurinn
Ef Jónas Jónsson frá Hriflu var umdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, þá var sennilega Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, hinn óumdeildasti. Bar þar margt til. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur, áheyrilegur fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. »Hann sigraði mig með ritsnilldinni,« sagði Barði Guðmundsson, sem hafði deilt við hann um skýringar á íslenskum fornritum.
Það var að líkum, að Sigurður var leystur undan kennsluskyldu um miðjan starfsferil sinn og að hann var skipaður sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, þegar mikið þótti liggja við vegna endurheimtar íslenskra handrita í dönskum söfnum.
Ekki voru þó allir jafnhrifnir af Sigurði. Steinn Steinarr orti kvæðið »Universitas Islandiæ«:
Ég minnist þess
að fyrir átján árum
stóð opinn lítill gluggi
á þriðju hæð.
eitt andartak
og horfði dreymnum augum
út um gluggann.
Þá brá ég við
og réði mann til mín
sem múraði upp í gluggann.
Ég les úr þessu kvæði ádeilu á Sigurð. Það var ort 1942, þegar endurskoðuð útgáfa Íslenzkrar lestrarbókar Sigurðar birtist, en fyrst kom hún út átján árum áður, 1924. Skrifstofa Sigurðar var á þriðju hæð í háskólahúsinu. Steini sárnaði líklega, að Sigurður sniðgekk hann með öllu í þessari endurskoðuðu útgáfu, þótt hitt sé rétt, að hún átti aðeins að ná til þjóðhátíðarársins 1930, og Steinn hafði þá ekki gefið út neina bók.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. febrúar, en þeir molar eru sóttir í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Facebook