Of feitir til að flýja og of hræddir til að berjast?

Núverandi ríkisstjórn er ekki nein venjuleg stjórn, heldur á hún í hörðu stríði við Sjálfstæðisflokkinn og aðra stjórnarandstöðuflokka. Það sést best á því, að hún beitti sér eftir valdatöku sína fyrir „hreinsunum“ gegn tveimur fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins. Annar þeirra var hrakinn úr stöðu sinni í Seðlabankanum, þar sem hann hafði einn manna varað við yfirvofandi bankahruni. Hinn var dreginn fyrir Landsdóm vegna aðgerðaleysis í ráðherrastól, þótt allir viti, að hann er saklaus.

Núverandi ríkisstjórn ætlar að reyna að koma hér á sósíalisma með því, að ríkið eignist allar auðlindir. Hún hefur hækkað skatta stórkostlega. Hún hrekur dugmikla, skapandi menn úr landi. Ráðherrar hennar ráðast hvað eftir annað harkalega á forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa reynt að gera þá ábyrga fyrir bankahruninu 2008, þótt Samfylkingin hafi verið í bestum tengslum við þá auðmenn, sem tæmdu bankana, eins og Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sýndi best.

Núverandi ríkisstjórn getur því ekki vænst þess, að Sjálfstæðisflokkurinn auðveldi henni leikinn. Brýnasta skylda flokksins er að reyna að koma þessari ríkisstjórn frá og endurreisa atvinnulífið. Brýnasta skylda flokksins er að berjast gegn stjórninni með öllum leyfilegum ráðum, en ekki að vinna verkin fyrir hana.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera stærri en svo, að hann komist fyrir í vasanum á Steingrími J. Sigfússyni.

Talað er um Stokkhólmsheilkennið, þegar fórnarlömb verða andlega háð kvölurum sínum: „Ekki berja mig svona fast. Þú mátt auðvitað berja mig, en ekki svona fast. Ég skal reyna að vera góður og þóknast þér.“

Sjálfstæðismenn mega aldrei verða of feitir til að flýja og of hræddir til að berjast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband