Umdeildasti Íslendingurinn

jonasfrahriflu_1057584.jpgFyrir nokkrum árum gáfu tveir ungir fjölmiðlamenn, Gísli Marteinn Baldursson og Ólafur Teitur Guðnason, út bráðskemmtilega bók með ýmsum listum tuttugustu aldar. Einn listinn var um umdeildustu Íslendinga aldarinnar, og skipaði Jónas Jónsson frá Hriflu þar efsta sæti. Það átti hann svo sannarlega skilið.

Jónas háði á öndverðum fimmta áratug tuttugustu aldar hatrammar ritdeilur við Halldór Kiljan Laxness, sem vitnaði þá í óprentaða vísu Einars Benediktssonar um Jónas frá því, að hann var dómsmálaráðherra 1927–1932:

 

Illa er komið Íslending

með óðan þjóf í dómahring.

Hver skal losa þjóðarþing

við þúsund vamma svívirðing?

 

Þótt Jónas héldi því fram, að Halldór hefði sjálfur ort vísuna, ber hún glögg höfundareinkenni Einars. Hún hlýtur að hafa verið því sárari fyrir Jónas sem hann var meiri aðdáandi Einars og hafði gert ýmislegt til að greiða götu hans í ellinni, þegar illa var komið fyrir honum.

Halldór kvað líka svo að orði sem frægt var, þegar Jónas gaf út ljóðmæli Einars skömmu eftir lát skáldsins, að nýtt fyrirbæri væri nú komið til sögunnar, að lifandi draugur eltist við látna menn.

Jónas svaraði því til, að Einar Benediktsson hefði sagt um Halldór: „Það vex ekki hundshár nema á hundi.“

Jónas var sem kunnugt er felldur úr formannsstól í Framsóknarflokknum 1944, og bauð hinn gamli flokkur hans fram gegn honum í Suður-Þingeyjarsýslu í þingkosningunum 1946, þótt Jónas næði þá kjöri gegn loforði til stuðningsmanna sinna um að bjóða sig ekki fram aftur. Fræg eru orð Sverris Kristjánssonar í grein um hann sjötugan: „Þegar hið aldna ljón öskrar eitt í nóttinni, þá svíður því sárast vanþakklæti og ræktarleysi fósturbarnanna í Framsóknarflokknum.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2011 og er unninn upp úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband