Ónákvæmni Jóns Ólafssonar

Þótt það sé ekkert aðalatriði í hinni stórfróðlegu bók Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið, kemur þar víða fram (í neðanmálsgreinum), hversu ónákvæmur og óvandvirkur Jón Ólafsson, heimspekingur á Bifröst, hefur verið í úrvinnslu heimilda í skrifum um kommúnistahreyfinguna íslensku.

Jón Ólafsson er sem kunnugt er í hópi þeirra, sem vilja gera sem minnst úr þeirri staðreynd, að hér starfaði öflugur og áhrifamikill byltingarflokkur, sem síðar varð kjarni Sósíalistaflokksins og enn síðar Alþýðubandalagsins. Í frásögn hans verða íslenskir kommúnistar hrekklausir hugsjónamenn, þjóðlegir verkalýðssinnar.

Nú hefur Jón svarað Þór á netsíðu sinni, og Egill Helgason tekur upp svarið á bloggsíðu sinni. Svar Jóns er skrifað af miklu yfirlæti, en Jón boðar jafnframt grein í Skírni síðar á árinu um skólagöngu íslenskra kommúnista í Moskvu, og er gott til þess að vita, að hann geti gengið að birtingu greina sinna vísri.

Þór Whitehead er maður til að svara fyrir sig. En fáránlegt er, þegar Jón skrifar drýgindalega: „Nú vill svo til að ég gjörþekki þær heimildir sem Þór er að nota, enda hef ég farið í gegnum þær í mörgum heimsóknum á skjalasafn Kominterns og miklu meira til.“

Eitt einkenni á skrifum Jóns um íslensku kommúnistahreyfinguna er einmitt, hversu illa hann er að sér. Hann hefur ekki þaulkannað heimildir, eins og Þór Whitehead hefur gert. Hér skal ég nefna nokkur dæmi, sem bent hefur verið á opinberlega, en mörg fleiri eru til og bíða síns tíma.

Versta og um leið hlægilegasta dæmið er það, sem Snorri G. Bergsson sagnfræðingur dró fram í dagsljósið: Jón Ólafsson fullyrti í bók sinni, Kæru félögum (1999), bls. 22, að sænski kommúnistinn Hugo Sillén hefði þegar árið 1921 haft afskipti af íslenskum kommúnistum. Heimild hans var bréf, sem sent var frá Íslandi til Moskvu í janúar 1921, en höfundur skrifaði „Sillinn“ undir. Jón vissi ekki, að þetta var gælunafn Hendriks Ottóssonar í kommúnistahreyfingunni. Hann gekk þar undir nafninu „Sillinn“, Brynjólfur Bjarnason undir nafninu „Billinn“ og Ársæll Sigurðsson „Sælinn“. Sillén kom hvergi nærri þessu bréfi.

Jón Ólafsson skrifaði talsvert í bók sinni um „skóla“ þá, sem íslenskir kommúnistar gengu á í Moskvu, en nær væri að kalla þjálfunarbúðir. Hann birti einnig um það sérstaka ritgerð í Nýrri sögu. Þar hefur hann bersýnilega ekki fullkannað heimildir, eins og ég benti á í grein í Þjóðmálum 2008. Eitt dæmi um það er, að þrír nemendur í þessum þjálfunarbúðum fóru fram hjá honum, þótt næg gögn væru til um þá alla: Þau Hjalti Árnason, Jóhannes Jósepsson og Elísabet Eiríksdóttir.

Vanþekking Jóns olli því síðan, þegar hann þurfti að geta sér til um, hver væri „félagi Johnson“, sem minnst var á í skjölum í Moskvu, að hann nefndi þá án þess að hafa nokkuð fyrir sér Angantý Guðmundsson (son Guðmundar skólaskálds), en augljóst er, þegar rýnt er í málið, að maðurinn var Hjalti Árnason, og raunar er það staðfest í einni heimild frá Moskvu.

Jón vissi ekki heldur, af því að hann hafði ekki fullkannað heimildir, sem þó voru til, að Kristján Júlíusson gekk í Moskvu undir dulnefninu „Poulson“. Hefur Ólafur Grímur Björnsson, læknir og fræðimaður, tekið saman afar fróðlega pistla um Moskvuvist tveggja íslenskra kommúnista, þeirra Hallgríms Hallgrímssonar og Kristjáns Júlíussonar. 

Jón vissi ekki heldur og af sömu ástæðu, af því að hann hafði ekki fullkannað heimildir, sem þó voru til, að dulnefni Lilju Halblaub í Moskvu gat ekki verið „Karen Hansen“. Það hefur líklega verið dulnefni Elísabetar Eiríksdóttur.

Vonandi leiðréttir Jón Ólafsson þessi atriði og fleiri (til dæmis röng ártöl og nafnarugling, sem talsvert er af í skrifum hans) í grein þeirri, sem hann hefur boðað í Skírni.

Einhver fráleitasta fullyrðing Jóns Ólafssonar er, að Sósíalistaflokkurinn hafi haustið 1938 verið stofnaður í andstöðu við Komintern, Alþjóðasamband kommúnista, sem kommúnistaflokkurinn íslenski átti aðild að. Hið eina, sem Jón hafði fyrir sér um það, var minnisblað frá einum starfsmanni Kominterns til forseta sambandsins, þar sem lýst var efasemdum um ráðagerðir íslenskra kommúnista.

Ég fann hins vegar skjal, sem farið hafði fram hjá Jóni, en ég birti í Stjórnmálum og stjórnsýslu 2009. Það voru sérstakar heillaóskir frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, ungliðasamtaka Sósíalistaflokksins, í tilefni stofnunar þeirra. Óhugsandi er, að þessar heillaóskir hefðu verið sendar, hefði Komintern verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, en bendi á, að langflestar heimildir um Komintern eru á þýsku, sem var hið opinbera mál sambandsins. Þar nýtur Jón ekki rússneskukunnáttu sinnar umfram aðra fræðimenn. Eru þessi gögn varðveitt í safni í Moskvu, sem ég hef raunar heimsótt (vorið 2004). Sá maður, sem rannsakað hefur ásamt Jóni gögn á rússnesku, Arnór Hannibalsson prófessor, hefur hins vegar í meginatriðum komist að sömu niðurstöðu um íslensku kommúnistahreyfinguna og Þór.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband