Sögulegt uppgjör

Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur las nýlega bók dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið. Gunnlaugur var félagsbundinn í Alþýðubandalaginu frá 1975 og síðan í Vinstri-grænum. Hann bloggar:

Mér finnst vera full ástæða til að gera þennan tíma upp því tíminn hefur leitt í ljós að ýmsilegt hefur reynst hafa verið á annan veg en af var látið. Kommúnisminn gaf sig út fyrir að hafa hagsmuni almennings og verkafólks sem sitt leiðarljós en sagan sýnir að ekkert var fjarri sanni. Í nafni hans hafa verið framin svo hryllileg grimmdarverk og óskapleg kúgun að nasisminn bliknar í þeim samanburði og skal þó ekkert dregið úr þeim ógnarverkum sem framin voru í nafni hans.

Gunnlaugur bendir á, að í bók Einars Karls Haraldssonar (ráðgjafa núverandi ríkisstjórnar) og Ólafs Einarssonar (sonar Einars Olgeirssonar) um Gúttóslaginn, hafi verið dregin upp sú mynd, að hungraðir verkamenn hafi verið að berjast fyrir tilvist sinni. En hann segir:

Samkvæmt bókinni Sovét Ísland er það mjög röng mynd. Í raun var Gúttóslagurinn manndómsraun harðsvíraðs kjarna byltingarsinna sem höfðu verið þjálfaðir í byltingarskóla hjá kommúnistum í Moskvu. Það er allt annar hlutur en að slást fyrir mat. Fleiri átök af svipuðum toga sem áttu sér stað á þessum tíma eru tilgreind í bókinni. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í miklum samskiptum við Komintern (Kommúnistisku alþjóðasamtökin) í Moskvu og fengu þaðan fyrirmæli og ráðgjöf. Það má segja ef rétt er með farið í bókinni að það hafi verið styttra í en ætla mætti í fljótu bragði að kommúnistar næðu undirtökum í samfélaginu hér með valdbeitingu en ætlað hefur verið til þessa. Nærtækast er að líta til Eystarasaltsríkjanna um hvernig mál hefðu skipast hérlendis ef sú hefði orðið raunin.

Gunnlaugur segir einnig, að sumt í umræðum um þessar mundir minni á umræður þá:

Sjálfseignarbændur (kúlakar) voru ofsóttir í Sovétríkjunum. Ástæða þess ar að þeir voru taldir hafa verið í uppreisn gagnvart samyrkjuvæðingunni, spekúlerað með korn og selt það öðrum en ríkinu eftir að þeir voru neyddir til að setjast á „samvinnubú“. Þetta minnir mig ögn á umræðuna um sjárvarútveginn hérlendis. Grimmur áróður dynur á þeim reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hamrað er á nauðsyn þess að koma auðlindum (les: kvóta í sjávarútvegi) í eigu þjóðarinnar hvað sem það nú þýðir. Þeir sem enn starfa við sjávarútveg eru látnir gjalda þess af einhverjir eru ósáttir við þá sem seldu sig út úr greininni. Hamrað er á að allur kvóti sé gjafakvóti þrátt fyrir að um 90% þess kvóta sem er notaður í dag hafi verið keyptur.

Gunnlaugur segir margt fleira, en lýkur bloggi sínu svo:

Bókin Sovét Ísland Óskalandið er mjög fróðleg og ástæða til að hvetja áhugafólk um sögu að lesa hana því menn geta rétt ímyndað sér hver framvinda mála hefði orðið hérlendis ef kommúnistar hefðu náð hér völdum. Það er hverjum manni hollt því næg eru fordæmin.

Tek ég undir hvert orð Gunnlaugs. Sjálfur er ég að vinna að bók, sem kemur út næsta haust, Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Get ég vottað með góðri samvisku, að á bak við bók Þórs liggja mjög traustar og viðamiklar rannsóknir. Hún er liður í sögulegu uppgjöri. Hér var mjög öflugur kommúnistaflokkur. Og enn eru til menn, sem vilja einhvers konar Sovét-Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband