Handtaka Sigurjóns

Sjálfsagt er, að mál fyrrverandi stjórnenda íslensku bankanna séu rannsökuð vægðarlaust og út í hörgul, eins og Davíð Oddsson lagði áherslu á, þegar hann sótti sem seðlabankastjóri hinn fræga fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008, þar sem hann varaði við yfirvofandi hruni bankanna við daufar undirtekir Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar.

Fyrrverandi stjórnendur bankanna eiga hins vegar að njóta sama réttar og aðrir Íslendingar. Ég skil til dæmis ekki alveg, nema ég fái aðgang að frekari gögnum, hvers vegna nú þarf að setja Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra, í gæsluvarðhald. Hefur hann ekki haft hátt á þriðja ár til að spilla hugsanlegum sakargögnum og sammælast við samstarfsfólk sitt um framburð?

Ef svo er, þá er gæsluvarðhald yfir honum líklega aðeins uppákoma til að hræða hann, friða fjölmiðla og afla embætti saksóknara vinsælda. Raunar eru slíkar handtökur algengar í Bandaríkjunum, þar sem saksóknarar vita, að almenningur kann vel að meta þær. Rudolph Giuliani var til dæmis frægur fyrir slíkar aðgerðir, á meðan hann var saksóknari á Manhattan. Aldrei vantaði sjónvarpsmyndavélar, þegar verðbréfasalar voru handteknir að undirlagi Giulianis, en oftast voru þeir sýknaðir mörgum árum síðar, af því að ekki voru næg gögn til að sakfella þá.

Mér er minnisstætt, að Atli Gíslason, lögfræðingur og núverandi alþingismaður, sagði eitt sinn í viðtali, að framkoma Baugsfeðga í Baugsmálinu væri skólabókardæmi um, hvernig sakborningar verja sig í efnahagsbrotamáli. Kvaðst hann hafa lesið nokkrar bækur um rannsókn og meðferð efnahagsbrota, þegar hann tók að sér að vera saksóknari fyrir ríkið í nokkrum slíkum málum. Beittu sakborningar að sögn Atla iðulega sömu brögðum og Baugsfeðgar gerðu, reyndu að drepa málum á dreif og leiða athygli frá aðalatriðum.

Sakborningar beita þó ekki einir brögðum. Ég hygg, að framganga sérstaks saksóknara í þessu handtökumáli sé líka skólabókardæmi um, hvernig aðilarnir hinum megin borðsins verja starf sitt og afla þess fylgis. Þeir vita, hversu vel það mælist fyrir að handtaka óvinsæla bankastjóra og verðbréfasala, sem áður fóru mikinn og vöktu öfund eða gremju.

En er ekki betra að búa í réttarríki en stunda bófahasar?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband