„Our son of a bitch“

Ég hef tvíræða afstöðu til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Annars vegar sé ég ótrúlega hégómagirnd hans, valdafíkn, tilhneigingu til að ofsækja andstæðinga sína, jafnvel fyrri vini, eins og kom fram í Hafskipsmálinu, dómgreindarleysi og vanstillingu. Ég hef líka heyrt margar sögur af því, hvernig hann kemur af hroka og tillitsleysi fram við venjulegt fólk, sem eitthvað á undir honum.

Hins vegar sé ég dugnað hans, vígfimi og málakunnáttu, eins og sést vel á því, hvernig hann hefur hlaupið í skarðið, sem ríkisstjórnin skildi eftir í Icesave-málinu, og varið málstað Íslendinga af krafti erlendis.

Áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-málið kom til sögunnar, sem breytt hefur skoðun margra á Ólafi til hins betra, enda tók hann þar rétta ákvörðun og fylgdi henni skörulega eftir, átti ég einu sinni tal við mann, sem þekkti Ólaf Ragnar vel og hafði í forsetatíð hans þurft að eiga margvísleg samskipti við hann og nánustu stuðningsmenn hans.

Ég sagði: „Nú eru menn eins og Halldór Guðmundsson, Einar Kárason, Már Guðmundsson og Mörður Árnason aldir upp við virðingu á íslenskri menningu og andúð á tildri og titlatogi. Þeir eru að eðli og upplagi vinstri sinnaðir menntamenn með öllum kostum þess og göllum. Enginn þeirra gæti skrifað hinn hola texta Ólafs Ragnars, þar sem hrúgað er saman skrautlegum orðum í einhvers konar óviljandi skopstælingu á stíl ungmennafélagsfrömuða á öndverðri tuttugustu öld. Og sjá þessir menn ekki, hversu illgjarn og ófyrirleitinn Ólafur Ragnar er stundum? Vita þeir ekki, að hann á sér aðeins eina hugsjón, sem taka má saman í þremur orðum, Ólafur–Ragnar–Grímsson? Er þeim sama um alla sýndarmennskuna á Bessastöðum?“

Viðmælandi minn brosti í kampinn og sagði: „Þessir menn vita nákvæmlega, hvernig Ólafur Ragnar er. Þeir segja og hugsa hróðugir: He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“ Það getur verið, að hann sé skepna, en við eigum þessa skepnu.

Í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, rek ég þessi frægu orð, en þau á Franklin Delano Roosevelt að hafa sagt um herforingjann Anastasio Somoza, sem stjórnaði Níkaragúu harðri hendi, en var hollur Bandaríkjunum. Ekki eru þau finnanleg í verkum Roosevelts, þótt oft séu þau höfð eftir honum. (Þau eru líka höfð eftir Cordell Hull, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Rafael Trujillo, einræðisherra í Dómínikanska lýðveldinu.)

Það er hins vegar kaldhæðni örlaganna, eins og Ólafur Ragnar Grímsson hefur hegðað sér síðasta árið, að líklega gætu hægri menn tekið sér þessi orð í munn: „He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“

Ekki veit ég hins vegar, hversu lengi þeir geta sagt seinni setninguna. Líklega er því hægri mönnum jafnt og vinstri best að halda sig aðeins við þá fyrri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband