2.1.2011 | 10:24
Guðrúnar saga Ósvífursdóttur
Mér er það minnis stætt úr íslenskutíma í menntaskóla, að kennari okkar, Jón S. Guðmundsson, cand. mag., sagði okkur eftir Sigurði Nordal, að líklega hefði Laxdæla saga átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. Hún er umfram allt saga hinna einkennilegu örlaga hennar. Hún er einn aðalgerandinn í sögunni.
Ég hef einmitt verið að lesa sumar Íslendinga sögurnar á ný nú um hátíðirnar, mér til ánægju og fróðleiks, þar á meðal Laxdæla sögu. En ég furða mig á því við lesturinn, hversu misjafnlega þeim Hallgerði Langbrók í Njáls sögu og Guðrúnu í Laxdæla sögu er borin sagan. Hefur önnur verið dæmd of hart, en hin of vægt.
Guðrún er sagður skörungur, kvenna vænst, vitur og kurteis. Hallgerður Langbrók er hins vegar þjófótt, þóttafull og hefnigjörn.
En þegar sögurnar eru lesnar vandlega, sést vel, að Guðrún var litlu betri en Hallgerður. Hún þykktist við, þegar hún fékk ekki að skipa öndvegi í boði í Hjarðarholti. Hún sendi mann (bróður sinn, en ekki þræl) til að ræna af Kjartani sverði, og hún tók ófrjálsri hendi moturinn dýrmæta af Hrefnu, konu Kjartans, sem Ingibjörg konungssystir hafði gefið Kjartani.
Munurinn á þeim Guðrúnu og Hallgerði er aðallega sá, að Guðrún kunni betur að stilla skap sitt, þegar aðrir sáu til, en Hallgerður missti stundum stjórn á sér í viðurvist annarra. Guðrún lét líka hnupla hlutum, af því að hún gat ekki unnt öðrum að njóta þeirra, en ekki af ágirnd eða frekju eins og Hallgerður.
Guðrún var þó ekki síður hefnigjörn en Hallgerður, og það var að áeggjan hennar, sem Kjartan var veginn. Enginn vafi er á því, að Kjartan var hin stóra ást í lífi hennar, eins og nútímamenn myndu orða það. Þegar hún sagði roskin kona hin frægu orð: Þeim var ég verst, sem ég unni mest, átti hún ekki við neinn sinna fjögurra eiginmanna, heldur við Kjartan.
Samband þeirra fóstbræðra, Kjartans og Bolla, er líka gamalkunnugt stef í bókmenntum og raunar lífinu sjálfu. Það er samband afburðamanns og mikils hæfileikamanns, sem bliknar þó í samanburðinum. Þetta er stefið um Mozart og Salieri, Hannes Hafstein og Valtý, Sigurð Nordal og Einar Ólaf og óteljandi aðra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook