9.11.2010 | 13:12
Þjóðfundurinn
Þjóðfundurinn var ekki eins slæmur og ég hafði gert ráð fyrir. Flestir, sem þangað komu, voru einlægir og góðviljaðir einstaklingar, og góður andi virðist hafa verið á fundinum. Mikilvægt er þó að missa ekki sjónar á aðalatriði málsins. Það er, að hrunið er ekki að kenna stjórnarskránni. Hún er stuttorð og gagnorð og í anda þeirrar frjálshyggju, sem einkenndi nítjándu öld, þar sem lögð var áhersla á að takmarka ríkisvaldið og tryggja réttindi einstaklinga, fundafrelsi, trúfrelsi og málfrelsi.
Ætti ég að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni, þá væru þær hins vegar þessar:
1) Valdsvið forseta yrði skýrt. Annaðhvort ætti að leggja embættið niður og fela forseta Alþingis að annast þær skyldur, sem forseti gegnir nú, eða viðurkenna víðtækara vald forseta en venja hefur verið um. Hallast ég frekar að fyrri leiðinni.
2) Tryggja ætti betur en nú, að skattlagningarvald og seðlaprentunarvald ríkisins yrði ekki misnotað. Þetta mætti gera með því að setja í stjórnarskrá, að ekki mætti leggja á nýja skatta nema með tveimur þriðju hluta atkvæða á þingi, að ekki mætti afgreiða fjárlög með halla lengur en í tvö ár og að menn gætu gert samninga sín í milli í hverjum þeim gjaldmiðli, sem þeir kysu.
3) Fækka mætti ráðherrum og þingmönnum og stytta þann tíma, sem Alþingi situr. Mönnum hættir til að halda, að mál leysist á fundum og með fundum. Það er misskilningur. Þau leysast í dagsins önn, í lífsbaráttunni sjálfri. Þar eru verðmætin sköpuð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook