8.11.2010 | 19:18
Tekjulágir misstu mest
Aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 4. nóvember 2010 er: Tekjulágir misstu minnst.
Vitnað er í rannsóknir Stefáns Ólafssonar um þetta. Ég hef áður bent á það rækilega (í bókinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör), hvernig Stefán hagræðir iðulega tölum í áróðursskyni. Bestu dæmin eru lífeyristekjur aldraðra (hann deildi með fjölda fólks á lífeyrisaldri í heildarlífeyrisgreiðslur, ekki með fjölda lífeyrisþega), tekjuskipting á Íslandi (hann reiknaði með söluhagnaði af hlutabréfum, sem ekki er gert annars staðar) og skattleysismörk (hann reiknaði ekki inn í þau frestun á skattgreiðslum af lífeyrissparnaði, sem koma til lækkunar).
En setjum svo, að Stefán hafi reiknað rétt í þetta skipti og kjör hinna tekjulágu hafi rýrnað tiltölulega minna en annarra hópa við hrunið.
Samt hefur þessi hópur misst mest. Hann hefur misst tækifærið til að hækka tekjur sínar, hætta að vera tekjulágur, því að það tækifæri fæst aðeins með lágum sköttum, blómlegu atvinnulífi og svigrúmi fyrir einkaframtak.
Stighækkandi tekjuskattur er í rauninni aðallega skattur á hina framsæknu, þá, sem vilja hækka sig um þrep, sækja á brattann, en komast þá að því, að skattbyrðin verður því þyngri hlutfallslega sem komist er í hærra tekjuþrep.
Fréttablaðið sýnir vel með þessum fréttaflutningi og fullkomnu gagnrýnisleysi sínu á tölum Stefáns Ólafssonar, að það er stjórnarblað, enda fær Jón Ásgeir Jóhannesson að halda yfirráðum sínum yfir þessu fyrra fjölmiðlaveldi sínu með sérstökum fyrirmælum frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook