Fræðileg forsenda auðlindaskatts hrakin

Því miður hefur Ísland breyst í land, þar sem allir öskra hver á annan  og hvers kyns grilluveiðarar eiga auðveldan aðgang að fjölmiðlum. Þess vegna verða málefnalegar rökræður útundan. Ég reyndi þó að leggja mitt til einnar slíkrar rökræðu í erindi mínu í Þjóðarspeglinum 29. október, „Skapa eigendur auðlindar engan arð?“

Þar gagnrýndi ég þá frumforsendu auðlindaskatts (eða uppboði á kvótum eða fyrningarleið, sem allt eru ólík nöfn á sama fyrirbæri), að auðlindarentan, sem tilgangur hans er að gera upptæka, minnkaði ekki við upptökuna. Hagfræðingar gætu því, segja stuðningsmenn auðlindaskatts, með góðri samvisku mælt með þeirri leið í nafni hagfræðinnar.

Ég benti í fyrsta lagi á, að Vilfredo Pareto hefði sett hagkvæmum breytingum á skipan mála það skilyrði, að enginn mætti tapa á slíkri breytingu, en allir eða a. m. k. sumir myndu græða. Sú leið, sem farin var á sínum tíma til að fækka bátum og minnka offjárfestingu í sjávarútvegi, að viðurkenna atvinnuréttindi bátseigendanna (kvótana) og gera þá framseljanlega og varanlega, svo að eigendurnir gætu með viðskiptum innbyrðis fækkað bátum og hagrætt, var Pareto-hagkvæm.

Hin leiðin, sem sumir lögðu til, að fækka bátum með því að bjóða upp atvinnuréttindin (kvótana), hefði hins vegar ekki verið Pareto-hagkvæm, því að þá hefði sumir tapað (þeir, sem ekki hefðu getað keypt réttindin og því orðið í einu vetfangi að hætta veiðum), sumir hvorki tapað né grætt (þeir, sem hefðu getað keypt réttindin og því greitt til ríkisins sömu upphæð og þeir hefðu áður tapað í offjárfestingu) og sumir grætt stórkostlega (atvinnustjórnmálamenn, sem hefðu fengið nýjan tekjustofn til að kaupa fyrir atkvæði).

Ég benti í öðru lagi á það sjónarmið Ronalds Johnsons, hagfræðiprófessors í Bandaríkjunum, að leið varanlegra og framseljanlegra atvinnuréttinda (eins og við Íslendingar fórum) er vænlegri til hámörkunar rentu eða arðs af auðlindinni af einni ástæðu, og hún er sú, að þá er það beinn hagur þeirra, sem fara með réttindin, að heildarafli sé settur skynsamlega hverju sinni. Ef bátseigendurnir eru hins vegar leiguliðar, þá munu þeir reyna að hegða sér eins og þeir gerðu áður, þegar aðgangur að auðlindinni var óheftur, veiða sem mest á sem stystum tíma.

Ég benti í þriðja lagi á þá röksemd Birgis Þórs Runólfssonar, hagfræðikennara í Háskóla Íslands, að rentunni af auðlindinni yrði líklega sóað, ef ríkið gerði hana upptæka. Í stað þess fyrra kerfis, sem stóð, áður en aðgangur var heftur með því að viðurkenna atvinnuréttindi, en þá sóuðu bátseigendurnir rentunni með of mörgum bátum, kæmi kerfi, þar sem ýmsir hagsmunahópar sóuðu rentunni (sem nú væri komin í ríkissjóð) með því að nota fjármuni í margvíslega keppni um úthlutanir úr ríkissjóði. Þetta kalla hagfræðingar „rent-seeking“.

Niðurstaða mín var sú, að náttúran skapar ekki ein rentu af auðlindum. Mennirnir hafa sitt að segja um, hvort hún verður mikil eða lítil, en einnig um hitt, hvort mikið verður eða lítið úr henni. Aðalatriðið er, að einkahagsmunir og almannahagsmunir fari saman, svo að menn hegði sér sjálfkrafa skynsamlega, en opinberir eftirlitsaðilar þurfi ekki sífellt að standa yfir þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband