Sovét-Ísland, óskalandið …

Jóhannes úr Kötlum orti um „Sovét-Ísland, óskalandið“. Því miður virðist sá draumur hans og fleiri gamalla kommúnista frekar vera að rætast nú en oft áður. Vinstri stjórnin íslenska keppist við að framkvæma tvo fyrstu liðina í Kommúnistaávarpinu (sem endurútgefið var nýlega og þegar hefur orðið að endurprenta), en þeir eru að koma á stighækkandi tekjusköttum og gera upptæka alla rentu af auðlindum (leggja á auðlindaskatt, bjóða upp kvóta).

Bankahrunið íslenska er ekki ástæða skattahækkana og annarra aðgerða stjórnarinnar í því skyni að auka völd ríkisins og þrengja að einstaklingum, heldur afsökun og átylla. Ekki var aðeins lagt á ráðin um þetta í Kommúnistaávarpinu, heldur líka í ritum minni spámanna, eins og Svavars Gestssonar í Sjónarrönd fyrir nokkrum árum.

Hægri menn verða að snúa vörn og sókn og hefja öfluga baráttu fyrir hugmyndum sínum. Mælingar hagfræðinga sýna vel, að lífskjör eru best, þar sem atvinnulíf er frjálst og eignarréttur nýtur verndar, ekki aðeins með yfirlýsingum í stjórnarskrá, heldur líka með öflugu og traustu réttarfari.

Jón Þorláksson, verkfræðingur, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði réttilega í þingræðu 1927: „Reynslan hér í Norðurálfu hefir og orðið sú, að því landi hefir vegnað best í stjórnarfarslegu tilliti, þar sem lagabókstafirnir eru fæstir, en stjórnarvenjurnar fastastar.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband