Hvað er Egill Helgason að fara?

Þetta er í annað sinn, sem ég verð að velja bloggi yfirskrift með þessu mannsnafni. Egill Helgason, sem á hvílir lagaskylda um óhlutdrægni í starfi, veitist nær daglega að mér á bloggi sínu á Eyjunni. Nú heimtar hann eins og Jóhannes í Bónus á undan honum, að ég verði rekinn frá Háskólanum. Jafnframt fullyrðir hann, að ég skrifi nafnlausar svívirðingar um samkennara mína undir nafninu Skafti Harðarson og í pistlum smáfuglanna á amx.is.

Mér er ekki ljóst, hvað Egill er að fara. Það á ekki að koma neinum á óvart, að gamall félagi minn úr stjórn Félags frjálshyggjumanna, Skafti Harðarson, sem bloggar á Eyjunni, hafi svipaðar skoðanir og ég á ýmsum málum og þó ekki öllum.

Það á ekki heldur að koma neinum á óvart, að gamall aðstoðarmaður minn, stofnandi Frjálshyggjufélagsins nýja og tengdasonur eins besta vinar míns, Friðbjörn Orri Ketilsson, umsjónarmaður amx.is, eigi um margt samleið með mér í stjórnmálum né aðrir þeir, sem þar skrifa.

Ég skal líka fúslega játa, að ég hef iðulega gefið þeim eins og mörgum öðrum góð ráð um málfar og efnistök. (Raunar þyrfti Egill Helgason stundum á slíkum ráðum að halda; oft er fljótaskrift á pistlum hans.)

Ég hef óspart gagnrýnt samkennara mína undir nafni. Ég hef til dæmis margsinnis bent á það hér á blogginu, að Stefán Ólafsson

  • gerði fátækt að miklu máli fyrir kosningarnar 2003, en samkvæmt mælingum var hún þá minni á Íslandi en í nokkru öðru landi heims að Svíþjóð undantekninni,
  • gerði ójafna tekjuskiptingu að miklu máli fyrir kosningarnar 2007, en samkvæmt mælingum var hún þá ekki eins ójöfn og hann hafði fullyrt, enda hafði hann reiknað hana rangt,
  • neitaði að viðurkenna, að á Norðurlöndum voru lífeyristekjur 2004 hæstar á Íslandi, en til þess að rökstyðja þessa neitun sína reiknaði hann rangt (deildi með tölu allra á lífeyrisaldri í heildarsummu lífeyrisgreiðslna í stað þess að deila með tölu þeirra, sem þáðu lífeyri, í þessa heildarsummu),
  • rauf trúnað sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, þegar hann var fenginn til að kanna fylgi hugsanlegra frambjóðenda í forsetakjöri 1996, en sagði ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunni.

Ég hef ekki orðið þess var, að í bloggi Skafta Harðarsonar eða pistlum smáfuglanna á amx.is hafi eitthvað annað og verra verið upplýst um Stefán Ólafsson.

Ég hef líka bent á það margsinnis hér á blogginu, að Þorvaldur Gylfason

  • hældi Taílendingum fyrir skynsamlega hagstjórn í nóvember 1996, en nokkrum mánuðum seinna varð hrun hjá þeim,
  • skammaði Íslendinga fyrir óskynsamlega hagstjórn við sama tækifæri og spáði hruni, en í hönd fór átta ára góðæri, sem ekki hvíldi á lántökum (því að þær hófust ekki að ráði fyrr en 2004),
  • reiknaði 2006 rangt út Gini-stuðla fyrir Ísland 2004, þegar hann vildi sýna fram á, að tekjuskiptingin hér væri miklu ójafnari en hún er í raun og veru,
  • taldi 2005, að rannsókn lögreglunnar á fjárglæfrum Baugsfeðga væri dæmi um stjórnmálaofsóknir, en ætti sér ekki efnislega stoð,
  • hefur ekki þrátt fyrir margar áskoranir sagt eitt einasta orð gegn Baugsfeðgum fyrir fjárglæfra þeirra, þótt hann deili hvatskeytlega á alla aðra, sem komið hafa nálægt hruninu.

Ég hef ekki orðið þess var, að í bloggi Skafta Harðarsonar eða pistlum smáfuglanna á amx.is hafi eitthvað annað og verra verið upplýst um Þorvald Gylfason.

Það er sem betur fer ekki enn orðið glæpur að vera sammála mér eða jafnvel endurtaka einhver sjónarmið, sem ég hef sett fram.

Ef einhvers staðar á að kvarta undan nafnlausum skrifum, þá er það undan hinum nafnlausu svívirðingaskrifum á bloggi Egils Helgasonar á Eyjunni, sem hann ber fulla ábyrgð á sem ritstjóri og umsjónarmaður.

Hvað er Egill Helgason að fara? Og við, sem viljum honum vel, hljótum líka að spyrja: Hvert er Egill Helgason að fara?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband