21.10.2010 | 16:46
Davíð í Háskólanum
Ég kenni námskeiðið Bandarísk stjórnmál í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Sjálfur hef ég fræðst um margt af því að kenna námskeiðið. Þótt skoðanir séu eflaust skiptar um Bandaríkin, eru þau eitthvert merkilegasta heimsveldi, sem sagan hefur séð.
Þriðjudaginn 19. október kom góður gestur í námskeiðið. Hann var Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem sagði að minni ósk nemendum frá fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hefur hitt og kynnst misjafnlega vel. Ronald Reagan var hinn fyrsti, en hann hitti Davíð stuttlega, þegar Reagan var forseti og Davíð borgarstjóri haustið 1986, en þá var leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs haldinn í Höfða.
Þegar Davíð varð forsætisráðherra vorið 1991, var George Bush eldri forseti, og kynntist Davíð honum í návígi á leiðtogafundum Atlantshafsbandalagsins. Hann hafði enn fleira saman að sælda við Bill Clinton, sem var forseti 19932001, á sama tíma og Davíð var forsætisráðherra. Loks sagði Davíð frá George Bush yngri, en leiðir þeirra lágu saman til haustsins 2004, þegar Davíð hvarf úr stól forsætisráðherra.
Davíð hefur eins og alþjóð veit hæfileika rithöfundarins til að lýsa mönnum, andrúmslofti og umhverfi, svo að skemmtilegt verði og skiljanlegt, og var frásögn hans af þessum fjórum valdamestu mönnum heims á sinni tíð mjög fróðleg og elskuleg, þar sem skotið var inn græskulausum gamansögum, sem sýndu, að þeir voru og eru mannlegir eins og aðrir.
Finnast mér þau Hillary og Bill Clinton hafa sýnt Davíð mikinn vináttuvott, þegar þau heimsóttu hann haustið 2004, er hann var að ná sér eftir mjög erfið veikindi, en þá hafði Clinton löngu látið af forsetaembætti, þótt Hillary væri sest í öldungadeildina. Þótt ekki sé ég sammála Clinton um allt, er enginn vafi á, að hann gegndi forsetaembættinu af prýði.
Fróðlegt var líka að heyra hugleiðingar Davíðs Oddssonar, er nemendur spurðu hann um framtíðina, sérstaklega uppgang nýrra stórvelda, eftir að Bandaríkin höfðu verið eina raunverulega heimsveldið í tvo áratugi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook