16.10.2010 | 11:45
Útvarpsþátturinn Harmageddon
Ég var miðvikudaginn 12. október 2010 í viðtali í þættinum Harmageddon á FM 977. Stjórnendurnir vildu óðir og uppvægir gera upp hrunið og finna sökudólga, ekki síst í Sjálfstæðisflokknum. Ég svaraði því til, að mikilvægast væri að læra af mistökunum, svo að halda mætti fram á við og upp á við. Til þess yrði auðvitað að vita og greina, hver mistökin væru.
Hinar innlendu ástæður hrunsins voru helstar, að fámenn klíka í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson lagði undir sig Ísland árin 20042008. Hún tæmdi bankana, stjórnaði fjölmiðlunum og braut skráðar og óskráðar reglur viðskiptalífsins. Lesa má um hana í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur henni fyrir dómstóli í New York. Menntamenn, álitsgjafar, embættismenn og stjórnmálamenn vanræktu að veita þessari klíku nauðsynlegt aðhald, enda sumir á mála hjá henni.
Hinar erlendu ástæður hrunsins voru helstar, að íslenska ríkið fékk engar lánalínur á ögurstund, svo að því var um megn að verða bönkunum bakhjarl. Jafnframt beittu Bretar hryðjaverkalögum gegn Íslendingum af fádæma fólsku. Það hefði þeir ekki gert, ef Íslendingar hefðu verið undir verndarvæng Bandaríkjanna, eins og var 19412006.
Minnst var á Seðlabankann. Ég fór stuttlega yfir það, sem rannsóknarnefnd Alþingis fann að Seðlabankanum í hruninu. Annað var, að hann hefði ekki stöðvað Icesave-starfsemi Landsbankans. Það hafði hann ekki vald til að gera. Hitt var, að ekki hefðu verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði kauptilboð í Glitni í upphafi hruns. Sú aðfinnsla var svo fáránleg, að hún gat aðeins komið frá opinberum starfsmönnum, sem alltaf hafa verið í skjóli og aldrei þurft að taka ákvarðanir í hita neins leiks.
Hitt er annað mál, að deilt hefur verið með ýmsum rökum á peningastefnu bankans frá 2001. En hver skyldi hafa markað hana? Sá heitir Már Guðmundsson, og hann var ráðinn seðlabankastjóri, löngu áður en umsóknarfrestur um stöðu seðlabankastjóra rann út.
Ég spurði, hvernig á því stæði, að einn maður, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefði getað safnað þúsund milljarða skuld í bönkunum án nokkurra persónulegra ábyrgða. Ég spurði, hvernig á því stæði, að Björgólfur Guðmundsson væri gjaldþrota og fjölmiðlar hans hefðu verið teknir af honum, en Jón Ásgeir héldi sumum fyrirtækjum sínum og stjórnaði enn mörgum öflugum fjölmiðlum, eins og sæist best á herferð Stöðvar tvö þessa dagana á hendur slitastjórn Glitnis og þögn Fréttablaðsins um staðreyndir óþægilegar honum.
Ég sagðist ekki trúa því, að stjórnendur Landsbankans og Arion banka hefðu að eigin frumkvæði og á eigin ábyrgð sýnt höfuðpaur hrunsins, Jóni Ásgeiri, slíka linkind. Þeir hlytu að hafa fengið fyrirmæli um það frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar.
Ég andmælti því, að setja mætti alla undir sama hatt og Jón Ásgeir og klíkuna í kringum hann. Fjöldi íslenskra auðmanna og bankamanna eru hinir mætustu. Hverri þjóð er nauðsynlegt að eiga menn, sem skapa auð með dugnaði og fyrirhyggju. Hverri þjóð er nauðsynlegt að eiga öfluga banka og góða bankamenn.
Ég minnti á, að lýðskrumarar reyna ætíð að gera sér óvini: Nasistar réðust á Gyðinga, kommúnistar á auðvaldið. Nú er reynt að gera alla auðmenn og alla bankamenn að glæpamönnum, vegna þess að Jón Ásgeir og klíkan í kringum hann misnotaði frelsið.
Það var gaman að ræða við þá tvo ungu og hressu menn, sem þættinum stjórna. Annar þeirra er raunar nemandi minn í stjórnmálafræði, Frosti Logason. Hinn reyndist vera náfrændi minn, Máni Pétursson, dóttursonur Björns Pálssonar á Löngumýri. Eigum við sama langafa, Pál Hannesson á Guðlaugsstöðum, en allir kannast við vísuna um Guðlaugsstaðakynið. Gáfu þeir Frosti og Máni mér engin grið í spurningum, eins og vera ber, og ekki er ég viss, að ég hafi heldur sýnt neina auðmýkt í svörunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Facebook