Fimm örlagarík ár

Ég er þeirrar skoðunar, að sum ár séu mjög örlagarík og mikilvæg, þótt ártalanna sé lítt getið í sögubókum. Hér eru fimm:

1096: Þá hófst opinber skattheimta á Íslandi, en dr. Birgir Þór Runólfsson segir í merkilegri doktorsritgerð, að við það hafi valdajafnvægi í landinu raskast, keppni hafist að því, sem hagfræðingar kalla aðstöðuhagnað, og þjóðveldið sennilega fallið.

1490: Þá var kveðinn upp Píningsdómur, en samkvæmt honum máttu útlendingar ekki hafa hér vetursetu. Þetta merkti, að þéttbýlisþróun tafðist um að minnsta kosti þrjú hundruð ár. Venjulegt alþýðufólk átti aðeins tveggja kosta völ, að gerast ýmist vinnuþý eða leiguliðar eða svelta í hel.

1922: Þá var í fyrsta skipti skráð gengi íslensku krónunnar, en áður hafði hún verið jafngild danskri krónu. Þá hófst tímabil peningalegrar lausungar (sem kann þó nú að vera skárri kosturinn af tveimur vondum).

1941: Þá tóku Bandaríkin okkur undir sinn verndarvæng, og þess vegna gátum við rekið Breta af fiskimiðunum í nokkrum áföngum og þurftum ekki að hafa áhyggjur af öryggi okkar.

2006: Þá sneru Bandaríkin við okkur bakinu og drógu Monroe-línuna vestan við Ísland, en ekki austan við það, eins og eðlilegt er. Eftir það gátu Bretar komið fram við okkur eins og verstu dólgar, jafnvel beitt hryðjuverkalögum gegn okkur. Það hefðu þeir ekki þorað, ef við hefðum notið verndar Bandaríkjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband