Alþingi felli ákæruna niður vegna gallaðrar málsmeðferðar

Það var stjórnmálahneyksli, þegar 33 þingmenn ákváðu gegn 30 að ákæra Geir H. Haarde fyrir Landsdómi vegna vanrækslu í ráðherrastarfi, en meiri hluti á Alþingi felldi síðan ákæru gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Þau Geir og Ingibjörg Sólrún voru oddvitar stjórnarflokkanna fyrir hrun og báru sömu stjórnmálaábyrgð, þótt sjálfur sé ég þeirrar skoðunar, að þau hafi axlað þá ábyrgð og ekki sé tilefni til frekari aðgerða gegn þeim.

Miklu frekar ætti að gefa þeim tækifæri til þess næstu árin að skýra sín sjónarmið og minna á það, að hruninu olli ekki síst sú ákvörðun Breta að beita hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og neita öðrum breskum banka í eigu Kaupþings, Singer & Friedlander, um aðstoð einum breskra banka. Hruninu olli líka að einhverju leyti sú ákvörðun Evrópska seðlabankans og seðlabanka í öðrum grannlöndum að opna ekki lánalínur til Íslands, sem hefði hugsanlega gert íslenska ríkinu kleift að verjast áhlaupi á bankana, einn þeirra eða fleiri, þótt um leið hefði auðvitað verið skipt um eigendur bankanna og stjórnendur.

Með því er ég ekki að gera lítið úr innlendum ástæðum bankahrunsins, svo sem glannaskap bankamanna og andvaraleysi stjórnvalda, heldur minna á, að um margt í aðdraganda hrunsins gátu íslenskir ráðamenn litlu sem engu ráðið.

En svo virðist sem alvarlegir gallar séu á málsmeðferð ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Í lögum og reglum um Landsdóm segir skýrt, að Alþingi eigi að ákveða, hvort ákært sé, sakarefnin skuli vera skýrt afmörkuð í ákærunni og jafnframt valinn saksóknari til að fylgja henni eftir. Þessu verði að vera lokið, áður en þingi sé slitið.

Þessum skilyrðum var ekki fullnægt. Sakarefnin voru ekki skýrt afmörkuð, ekki var jafnframt ákvörðun um ákæru valinn saksóknari til að fylgja henni fram, og þingi var raunar slitið, áður en hann var valinn.

Þegar af þessari ástæðu ber Alþingi hið snarasta að fella ákæruna niður.

Þessi atriði eru engin smáatriði eða aukaatriði. Hugsun löggjafans með Landsdómi er skýr. Sakarefnin á hendur ráðherrum verða að vera augljós, en þess eðlis, að venjulegum lögum verði ekki komið yfir þá. Einn möguleiki gæti til dæmis verið, að ráðherra semdi fáránlega af sér í samningi við erlent ríki, og væru hvatir hans með því þær einar að koma höggi á einhvern stjórnmálaandstæðing. Ég sé ekki, að slíkt athæfi varði neins staðar við skrásett lög, en eflaust ætti þetta að vera refsivert (ef miklir hagsmunir eru til dæmis í húfi), og ætti þá Landsdómur við. En þá gegnir Alþingi öðru hlutverki en venjulegir löggæsluaðilar. Það semur ákæruna, samþykkir hana og velur ákæranda til að fara með hana. Þetta er allt sama ákvörðunin, og verða einstakir þættir hennar vart slitnir hver frá öðrum.

Svo virðist sem sumir þingmenn hafi talið, að þeir væru aðeins að fela einhverjum öðrum að rannsaka og dæma í þessu máli. „Reyna þyrfti á“ ráðherraábyrgð. Svo er ekki. Þeir voru að ákæra. Og þeir áttu aðeins að greiða atkvæði með ákærunni, ef þeir voru sannfærðir um sekt, sakarefnin voru skýrt afmörkuð og ákærandi jafnframt valinn, eins og kveðið er á um, og síðan máttu þeir slíta þingi og ekki fyrr.

Vonandi söðlar meiri hluti Alþingis ekki einu broti á annað.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband