Pólitísk réttarhöld

Það eru stór, en dapurleg tíðindi, að tillaga um að ákæra Geir H. Haarde fyrir vanrækslu í ráðherrastöðu skyldi fá brautargengi á þingi, þótt ekki munaði að vísu miklu, um leið og tillaga um að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var felld.

Hér er bersýnilega efnt til pólitískra réttarhalda. Hefndarþorsti og hentisemi ráða, ekki vilji til réttlætis. Saklausum manni skal fórnað. Enginn bjóst að vísu við öðru af þingmönnum Vinstri-grænna og Hreyfingarinnar, en það kemur á óvart, að 10 þingmenn Samfylkingarinnar og 5 þingmenn Framsóknarflokksins skyldu taka þátt í þessu óhæfuverki.

Enginn vafi er á því, að Geir verður sýknaður fyrir Landsdómi. Honum voru eflaust mislagðar hendur síðustu misserin fyrir bankahrun, í því miðju og næstu mánuði á eftir, og hann hefur þegar tekið ábyrgð á því með því að hverfa úr stjórnmálum, en hann er enginn glæpamaður.

Mikil er ábyrgð þeirra 33 þingmanna, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir. Það fólk fór ekki eftir skynsamlegu mati á því, hvaða líkur væru á, að hann yrði sakfelldur fyrir Landsdómi, heldur stjórnmálahagsmunum og sínum verstu hvötum. Þetta fólk sleppur ekki við áfellisdóm sögunnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband