23.9.2010 | 22:00
Fróðlegur fundur í gær
Ég hafði framsögu á fundi Frjálshyggjufélagsins í gær um skattamál. Fundurinn var fróðlegur og skemmtilegur og greinilegt, að fundarmenn höfðu áhuga og þekkingu á skattamálum, sem eru mjög mikilvæg. Ég gerði að umtalsefni þrjár fullyrðingar:
1) Því var haldið fram fyrir kosningar 2003, að fátækt væri veruleg á Íslandi. Svokallað Borgarfræðasetur gaf út skýrslu um fátækt, sem afhent var forseta Íslands á Bessastöðum nokkrum vikum fyrir kosningar. Tölur hagstofu Evrópusambandsins sýna hins vegar, að um þær mundir var fátækt á Íslandi sennilega minni samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum en í nokkru öðru Evrópulandi að Svíþjóð undantekinni. Nú eiga 192 ríki aðild að Sameinuðu þjóðunum. Líklega var fátækt meiri í 190 þeirra þetta ár.
2) Því var haldið fram fyrir kosningar 2007, að tekjuskipting hefði orðið miklu ójafnari á Íslandi árin 19952004 en annars staðar á Norðurlöndum. Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason skrifuðu heilu greinaflokkana um þetta. Tölur hagstofu Evrópusambandsins sýna hins vegar, að tekjuskipting var árið 2004 í svipuðu horfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Þeir Stefán og Þorvaldur höfðu reiknað rangt: Þeir höfðu reiknað inn í íslensku tölurnar söluhagnað af hlutabréfum, en honum var sleppt í útlendu tölunum.
3) Nú er því haldið fram, að ekki dragi úr vinnufýsi manna, þegar skattar á vinnutekjur þeirra eru hækkaðir. Þetta stangast á við heilbrigða skynsemi, reynslu okkar og rannsóknir vísindamanna (ekki farandprédikara félagshyggjunnar). Í fyrirlestri á Íslandi 2007 sýndi bandaríski Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott fram á sterkt (öfugt) samband vinnufýsi og skatta á vinnutekjur. Hann benti á, að vinnustundir á Íslandi væru sennilega oftaldar í opinberum tölum. Einnig skipti sú staðreynd máli, að sköttum á Norðurlöndum væri oft endurdreift, svo að neikvæð áhrif þeirra á vinnufýsi manna væru ekki eins mikil og ella.
Ég nefndi mörg dæmi um svokölluð Laffer-áhrif (þar sem skattstofninn getur stækkað eða minnkað við misjafna skattheimtu). Ein hin skýrustu hefur dr. Gylfi Zoëga prófessor rannsakað: Vinnufýsi Íslendinga jókst á skattlausa árinu svonefnda 1987, þegar skipt var úr eftirágreiðslu tekjuskatts í staðgreiðslu þeirra. Önnur áhrif eru af húsaleigu: Þegar skattheimta á leigutekjur fór úr 4050% niður í 10%, stórjukust leigutekjur, enda gerðist hvort tveggja, að skattskil bötnuðu og framboð leiguhúsnæðis jókst.
Málið er einfalt. Framboð minnkar, ef verð lækkar. Framboð vinnu minnkar, ef verð hennar lækkar (eins og gerist, þegar greiða þarf hærra hlutfall af tekjunum af henni til ríkisins.)Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook