15.9.2010 | 11:16
Þau eru ekki glæpamenn
Þau Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, eru ekki glæpamenn, þótt oft hafi þeim eflaust verið mislagðar hendur í aðdraganda bankahrunsins. Sérstaklega er ámælisvert, að þau tóku ekki mark á endurteknum viðvörunum Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, um, að viðskiptabankarnir væru í höndum fámennrar klíku undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem létu þar greipar sópa.
En fyrir þau afglöp hafa Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir axlað sína ábyrgð. Þau hrökkluðust bæði úr stjórnmálum. Nóg er að gert. Engum heilvita manni getur dottið í hug, að þau Geir og Ingibjörg Sólrún hafi ætlað íslensku þjóðinni eitthvað illt. Sitt er hvað, að gera mistök og brjóta lög. Þess vegna stígur Alþingi mikið óheillaspor, ef ákveðið verður að draga þau Geir og Ingibjörgu Sólrúnu fyrir Landsdóm.
Hvað um vanrækslu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat í sérstakri ráðherranefnd um ríkisfjármál? Hvað um vanrækslu Össurar Skarphéðinssonar, sem skýrði samkvæmt fyrirmælum Ingibjargar Sólrúnar Björgvini G. Sigurðssyni ekki frá ýmsum mikilvægum málum vegna alkunnrar lausmælgi hans? Hvað um Gylfa Magnússon nú nýlega, sem stakk undir stól lögfræðiáliti frá Seðlabankanum? Ef á að ákæra Geir og Ingibjörgu Sólrúnu, þá hlýtur einnig að verða að ákæra þetta fólk fyrir vanrækslu.
Gleymum ekki heldur þeim ráðherrum, sem sömdu rækilega af sér í Icesave-málinu, en höfðu að engu álit færustu lögfræðinga. Sem betur fer hnekkti þjóðin ákvörðunum þeirra í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu, en söm er þeirra gerðin.
Við Íslendingar eigum að búa í réttarríki. Ein regla réttarríkisins er, að ekki verður sakfellt, nema brotið sé skýrt og sannað. Ég kem ekki auga á, hvernig fara á eftir þeirri reglu í máli þeirra Geirs og Ingibjargar Sólrúnar. Önnur regla réttarríkisins er, að vafi sé ávallt talinn hinum ákærða í hag. Hin þriðja, sem náskyld er hinni annarri, er, að ákæruvaldinu sé ekki misbeitt. Þeir, sem með ákæruvaldið fara, eru ekki í sömu aðstöðu og kaupmaður, sem prófar sig áfram í því skyni að komast að því, hvaða vörutegundir seljast. Þeir, sem með ákæruvaldið fara, eiga ekki að ákæra og mega ekki ákæra, nema þeir séu sjálfir sannfærðir um það, að enginn vafi sé á sekt þeirra, sem þeir hyggjast ákæra.
Ef þingmenn greiða atkvæði með því að ákæra þau Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þótt allir viti, að þau hafi ekki framið neinn glæp, þá eiga þeir hinir sömu þingmenn sjálfir að sæta ábyrgð fyrir misnotkun valds, ef svo fer, sem einsætt er, að Landsdómur sýkni þau. Það er óþolandi, að ákæruvaldinu sé misbeitt í stjórnmálatilgangi.
Reynist það rétt, sem komið hefur fram opinberlega, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi haft afskipti af störfum þingmannanefndarinnar um málið, þá hefur hún brotið stórkostlega af sér. Og hvað um þau vandkvæði, að úrskurði Landsdóms verður hvergi áfrýjað? Eða um hitt, að með ákæru á hendur þeim Geir og Ingibjörgu Sólrúnu er erlendum innheimtumönnum veitt ný tækifæri til að koma fram málum á hendur íslenska ríkinu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook