29.7.2010 | 03:50
Tvískinnungur og hræsni
Nokkrar umræður hafa orðið um tölvubréf mitt í gær um dóm sögunnar á spjallsvæði sagnfræðinga, og svaraði ég athugasemdum áðan. Hér er svar mitt:
Ágætu sagnfræðingar,
ég hef fengið margvísleg viðbrögð við pistli mínum frá því í gær, þar sem ég sagði, að eitt mikilvægasta hlutverk sagnfræðinga væri að varpa kastljósi sögunnar á þá hópa, sem illa hefðu verið leiknir, væru ósýnilegir, horfnir. Þeir yrðu að sjá um, að níðingar fengju makleg málagjöld, þegar veruleikinn brygðist sem dómari yfir slíkum mönnum.
Viðbrögðin hafa dálítið verið í þeim anda, að ég get tekið mér í munn fleyg orð Jóns G. Sólness, bankastjóra á Akureyri, þegar hann sagði í heita pottinum í sundlaug Akureyrar:
Getið þið sagt mér, hvers vegna skrif Þjóðviljans um innrásina í Tékkóslóvakíu snúast eingöngu um þátttöku Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu?
Að sjálfsögðu eiga sagnfræðingar ekki að skrifa aðeins sögu sigurvegaranna, og að sjálfsögðu eiga þeir ekki að leggja einn siðferðilegan mælikvarða á eitt ríki og annan á annað ríki.
Eitt skýrasta dæmið er síðari heimsstyrjöld. Nú er ég þeirrar skoðunar, ef eitthvert stríð er réttlætanlegt, að það stríð hafi þá verið það. Afvopna þurfti Hitler og Mússólíni. Þeir voru stórhættulegir skaðvaldar, sem kúguðu ekki aðeins þegna sína og ofsóttu minnihlutahópa, sérstaklega Hitler, heldur röskuðu jafnvægi í Norðurálfunni og stefndi friðnum í hættu.
Raunar verð ég að gera athugasemd við það, sem Gunnar Karlsson segir, að menn hafi aldrei verið mikið í flokki með Stalín, svo að auðvelt sé að gagnrýna hann. Öðru nær. Hér á landi starfaði stjórnmálaflokkur, sem studdi Stalín eindregið, og hafði hann hér talsvert fylgi. Í óbirtri bók eftir mig er kafli um það, þegar Arnór Hannibalsson reyndi að gagnrýna Stalín nýkominn frá Ráðstjórnarríkjunum á sjöunda áratug, eftir ræðu Khrústjovs, og kemur þar margt fróðlegt fram um viðbrögð íslensku stalínistanna. Einn samkennari Gunnars og ágætur kennari minn skrifaði jafnvel ævisögu stalínistans Einars Olgeirssonar. Stalín var hér svo sannarlega.
Hvað um það, mörgum þeim hópum, sem nasistar og fasistar ofsóttu, hefur verið gerð góð skil í sögubókum, sérstaklega Gyðingum, enda eiga þeir að bakhjarli ríki og auk þess öfluga áróðursvél í stórum löndum. En sagnfræðingar mega ekki gleyma öðrum hópum, sem lítt hefur verið rætt um.
Einn þeirra er tíu milljónir manna af þýsku bergi brotnar, sem reknar voru út af heimilum sínum í Póllandi og Tékkóslóvakíu af mikilli hörku og fengu ekki að taka neitt með sér, sem heitið gat, til Þýskalands. Þrjár milljónir Súdeta-Þjóðverja voru til dæmis reknar út úr Tékkóslóvakíu, þótt þetta fólk hefði verið þar ríkisborgarar (að vísu unað hag sínum illa). Þetta fólk og forfeður þess höfðu búið í þessum löndum, til dæmis Slésíu og Súdetafjöllum, öldum saman. Auðvitað bar þetta fólk ekki sem hópur ábyrgð á framferði Þjóðverja í stríðinu. Við getum ekki sagt eins og Ílja Erenbúrg um kúlakkana, sjálfseignarbændurna rússnesku: Enginn þeirra var sekur um neitt. En stétt þeirra var sek um allt. (Þessi setning Erenbúrgs er sjálf fullkomlega ósiðleg.)
Annar kúgaður hópur var bandarískt fólk af japönsku bergi brotið, sem voru sent í vinnubúðir og einnig svipt eignum sínum að miklu leyti. Illa var farið með þennan hóp og það aðeins vegna uppruna hans. Þetta voru bandarískir ríkisborgarar og áttu að njóta allra sömu réttinda og aðrir borgarar.
Enn annar hópur voru menn frá Eystrasaltsríkjum, sem Svíar og Finnar afhentu Kremlverjum eftir stríð, en margir þeirra höfðu ekki barist í stríðinu gegn Rauða hernum, þótt því væri haldið fram. Eru til ljótar sögur af því.
Með öðrum orðum voru það ekki aðeins þeir, sem töpuðu í stríðinu, sem frömdu glæpi, kúguðu varnarlaust, saklaust fólk. Ég tel, að það sé hlutverk sagnfræðinga að vekja athygli á þessu og kalla þá hlutina sínum réttu nöfnum.
Í athugasemdum við mál mitt var minnst á ríki Rómönsku Ameríku. Tvískinnungurinn um lönd þeirrar álfu hefur verið mikill. Allir eru réttilega sammála um að fordæma mannréttindabrot Pinochets í Síle, og hann var jafnvel handtekinn í Bretlandi. En hver minnist á Castró í því sambandi? Munurinn var þó sá, að líklega hafa tíu sinnum fleiri týnt lífi af stjórnmálaástæðum undir stjórn Castrós en undir stjórn Pinochets (30 þúsund á móti 3 þúsund), jafnframt því sem Pinochet fór frá völdum eftir að hafa tapað í kosningum, en Castro ekki, að því ógleymdu, að Pinochet skildi við Síle í blóma, en allt er í niðurníðslu á Kúbu. En auðvitað eiga sagnfræðingar ekki aðeins að klappa fyrir góðum árangri Pinochets í efnahagsmálum og andvarpa fegnir yfir því, að hann skyldi fara friðsamlega frá völdum, heldur líka leita uppi fórnarlömb hans og gera þeim skil.
Hver skyldi til dæmis vera siðferðileg ábyrgð þeirra manna á harðstjórn á Kúbu, sem gerðust beinlínis sjálfboðaliðar á sykurekrum þar, eins og margir vestrænir menntamenn gerðu, jafnvel frá litla Íslandi? Þeir sátu ekki aðeins hjá, heldur liðsinntu harðstjóranum grimma.
Hér var líka minnst á nýlendustefnu. Auðvitað átti nýlendustefnan sér fórnarlömb, enda var hún frávik frá þeirri hugsun vestrænnar menningar, að betra sé að fara fram með verði en sverði, betra að stunda frjáls viðskipti en valdbeitingu til að öðlast það, sem hugurinn girnist. Þetta benti William Graham Sumner á, þegar Bandaríkjamenn lögðu undir sig Filippseyjar, sem hér á spjallvefnum var minnst á. Hann skrifaði fræga ritgerð, sem hét The Conquest by Spain of the United States, Sigur Spánar á Bandaríkjunum. Einhverjir telja þetta við fyrstu sýn öfugmæli, því að Bandaríkin hafi sigrað í stríðinu við Spán (en við það hrepptu þeir Filippseyjar). En Sumner segir einmitt, að Bandaríkjamenn hafi með landvinningum í krafti vopnavalds yfirgefið hina fornu stefnu sína, sem þau voru stofnuð utan um, að leyfa mönnum óáreittum að bjarga sér og sínum.
Hins vegar má ekki gleyma því í umræðum um nýlendustefnu, að langlífasta nýlenduveldið var Ráðstjórnarríkin. Ekki má heldur gleyma því, að ógeðfelldasta afbrigði nýlendustefnunnar, þrælahaldið, var lagt niður af vestrænum mönnum eftir harða baráttu. Arabaþjóðir hófu þrælahald fyrr og lögðu það niður síðar en Vesturveldin, og þær lögðu það ekki niður vegna samviskubits eða innri baráttu, heldur tilneyddir af utanaðkomandi aðilum. Raunar gengu svartir menn í Afríku harðast fram í því að hneppa aðra svarta menn í þrælahald og selja síðan á þrælaskipin í bómullarekrurnar í Suðurríkjum Bandaríkjanna og sykurekrurnar í Vestur-Indíum og Brasilíu. Og eftir að nýlenduherrarnir yfirgáfu lönd sín, hafa víða tekið við innlendir harðstjórar, til dæmis í Simbabve. Íbúar Hong Kong vildu líka miklu frekar halda áfram að vera nýlenda Breta en lenda undir stjórn Kínverja. (Ekkert af þessu afsakar til dæmis illvirki Leopolds II. Belgakonungs.)
Torfi Stefánsson sakaði mig um hræsni hér. Ég vísa því til föðurhúsanna og minni á, að Torfi taldi upp fórnarlömb einræðisstjórnanna í Argentínu og Síle, en þagði um Kúbu. Hvað er það annað en tvískinnungur?
Það eru hins vegar aðeins menn, sem skynja ekki eðlileg hlutföll tilverunnar, sem halda því fram, að ekki sé reginmunur á vestrænum lýðræðisríkjum þrátt fyrir þau dæmi, sem ég hef einmitt nefnt (svo sem af framkomunni í Bandaríkjunum við fólk af japönsku bergi brotnu), og alræðisríkjum kommúnista og nasista, sem margir vestrænir menntamenn afsökuðu ekki aðeins, heldur studdu, um leið og þeir lokuðu augunum fyrir fórnarlömbum alræðisherranna.
Það var undantekning í Bandaríkjunum og Bretlandi, sem var reglan í Þýskalandi Hitlers og Ráðstjórnarríkjum Stalíns.
Sagnfræðingar eru skeikulir eins og aðrir. En eru ekki allir sammála því, að dómur sögunnar um nasismann er, að hann hafi verið ómannúðlegur, mannfjandsamlegur, illur? Eigum við ekki að kalla illmenni illmenni? Og féll þessi dómur ekki vegna þess, að nasistar frömdu voðaverk, sem voru dregin fram í dagsljósið, sérstaklega eftir stríð? Fyrir stríð vildu fæstir vita af Gyðingaofsóknunum. Þá skiptust ríki heims í tvennt: Þau, sem vildu reka Gyðinga burt frá sér, og hin, sem ekki vildu taka við þeim.
Eigum við ekki líka að líta í eigin barm? Til dæmis ættum við að muna skeytið frá B. E. Kuniholm ræðismanni til yfirboðara hans í Washington 23. júní 1941, þegar Hermann Jónasson var forsætisráðherra:
The Prime Minister requests that no negroes be included in the unit assigned here.
Forsætisráðherra óskar eftir því, að engir svertingjar verði í liðssveitinni, sem skipað verður niður hér.
Rifja má upp, að þessi setning var felld úr útgáfu Bandaríkjastjórnar á ýmsum skjölum 1959, en án úrfellingarmerkis. Þótt þetta sé ekki eins dramatískt dæmi og af flekanum, sem kommúnistar sökktu úti á Volgu og Solzhenítsyn segir frá, eða Armenunum, sem Hitler taldi, að gleymst hefðu, er það einmitt hlutverk sagnfræðinga að sjá um, að slík dæmi hverfi ekki, séu ekki felld út þegjandi og hljóðalaust.
Þess vegna er dómur sögunnar nauðsynlegur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:52 | Facebook