Dómur sögunnar

Undanfarnar vikur hafa sagnfræðingar skipst á skoðunum á spjallsvæði sínu um dóm sögunnar. Upphafið var, að einn þeirra hélt erindi um það, að dómur sögunnar væri ætíð rangur. Aðrir voru ósammála honum. Ég leyfði mér í dag að leggja orð í belg og sendi svohljóðandi tölvubréf til þeirra, sem taka þátt í spjallinu:

Ágætu sagnfræðingar,


má ég minna á, að sagnfræðingar geta gegnt einu mikilvægu hlutverki. Það er að sjá um, að þeir, sem sveifla sverði, brjóta rétt á fólki, rjúfa grið, fremja níðingsverk, kúga þjóðir, efna til ófriðar, ofsækja fólk vegna hörundslitar þess, kynferðis eða trúar og svo má lengi telja, hljóti makleg málagjöld, jafnvel þótt þeir deyi sjálfir á sóttarsæng eins og Stalín, en ráði sér ekki bana eins og Hitler eða hjari um skeið í útlegð eins og Napóleon.

Um þetta segir franski sagnfræðingurinn Chateaubriand:

Lorsque, dans le silence de l’abjection, l’on n’entend plus retentir que la chaîne de l’esclave et la voix du délateur; lorsque tout tremble devant le tyran, et qu’il est aussi dangereux d’encourir sa faveur que de mériter sa disgrâce, l’historien paraît, chargé de la vengeance des peuples. C’est en vain que Néron prospère, Tacite est déjà né dans l’empire.

 

En ég myndi leyfa mér að þýða það svo:

Við hina djúpu þögn undirgefninnar, þar sem ekkert heyrist nema glamrið í hlekkjum þrælsins og hvísl uppljóstrarans, allir skjálfa af ótta við harðstjórann og sami háski er að vera í náðinni hjá honum og vekja óánægju hans, birtist sagnfræðingurinn, sem tryggja á makleg málagjöld fyrir hönd alþýðu manna. Neró dafnaði til einskis, því að Tacitus hafði þegar fæðst í Rómaveldi.

 

Mér er minnisstætt, þegar ég las Gúlageyjaklasann eftir Aleksandr Solzhenítsyn snemma á áttunda áratug, að hann sagði frá mönnum, sem kommúnistar tóku af lífi með því að setja þá á fleka út á mitt vatn og sökkva síðan flekanum. Fórnarlömbin hurfu án þess að skilja eftir sig nein ummerki. Er það ekki einmitt hlutverk sagnfræðingsins að sjá um, að þau hverfi ekki úr sögunni?

Enn man ég, að haft er eftir Hitler, þegar hann brýndi fyrir hermönnum sínum (í Obersalzburg 22. ágúst 1939) að sýna óvinum enga miskunn:

Wer redet heute noch von der Vernichtung der Armenier?
Hver minnist nú hvort sem er á það, þegar Armenum var útrýmt?

 

Er það ekki einmitt hlutverk sagnfræðingsins að sjá um, að menn muni eftir Armenum?

Menn mega ekki gleyma því, að dómarar er ekki alltaf hrokafullir Bretar úr Oxford-háskóla með hárkollur á höfði, heldur er oft eina úrræði þeirra, sem minna mega sín, að leita til þeirra og reyna að rétta hlut sinn.

Að breyttu breytanda geta sagnfræðingar verið slíkir dómarar.

Þess vegna getur dómur sögunnar átt rétt á sér — til þess að gera hina ósýnilegu sýnilega, til þess að beina kastljósinu að hinum kúguðu, til þess að muna hina gleymdu, til að sjá um, að níðingar hljóti makleg málagjöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband